149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp og vil byrja á að taka undir orð hv. þingmanns um að börn beri aldrei ábyrgð á eigin fátækt eða þeirri stöðu að búa við fátækt. Börn eru eiginlega ekki fátæk heldur eru það aðstæðurnar sem þau búa við sem gerir það að verkum að þau geta ekki fengið það sama og önnur börn.

Ég held að það sé gott, af því að hv. þingmaður vitnaði til skýrslu sem er nýútkomin, að minna okkur samt á að Ísland stendur almennt mjög vel þegar kemur að stöðu barna. Allar kannanir og rannsóknir sýna að almennt er gott að vera barn á Íslandi, við erum almennt frekar ofarlega þegar kemur að þeim málum. Að því sögðu er ljóst að það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, að eitt barn sem býr við fátækt er einu barni of mikið. Nýleg skýrsla sem var unnin fyrir Velferðarvaktina sýnir að það eru áskoranir þegar kemur að þessu. Að vísu er þetta skýrsla sem var unnin á árunum 2004–2016 sem er unnin yfir langt tímabil, en hún skýtur stoðum undir það sama og var í UNICEF-skýrslu sem var kynnt árið 2016 sem hv. þingmaður benti á.

Ég verð að segja að ég fagnaði mjög þeirri skýrslu sem var kynnt Velferðarvaktinni og var viðstaddur kynningu hennar. Ég vil benda á að UNICEF-skýrslan sem unnin var á sínum tíma og sýndi fram á að 9,1% allra barna hefðu samkvæmt greiningunni búið við skort árið 2014, að stjórnvöld studdu UNICEF sérstaklega til þess að uppfæra þá skýrslu sem unnin var á síðasta ári. Við eigum von á að fá niðurstöður úr því mjög fljótlega vegna þess að gríðarlega mikilvægt er að við séum samhliða því sem við erum að vinna í aðgerðum, sem hv. þingmaður þekkir og ég kem betur inn á á eftir, að við tökum stöðuna á því hvernig við stöndum hverju sinni og við séum með nýjar upplýsingar í því.

Í tengslum við þetta vil ég segja að það er ýmislegt sem við höfum gert á undanförnu ári. Meðal annars hafa barnabætur verið hækkaðar, greiðslur í fæðingarorlofi hafa verið hækkaðar og verið er að vinna í lengingu fæðingarorlofs og samtali við sveitarfélögin um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er einmitt eitt af því sem Kolbeinn Stefánsson skýrsluhöfundur benti á í skýrslu sinni.

Það liggja líka fyrir mjög róttækar tillögur í húsnæðismálum, í 40 liðum, sem nú er verið að vinna að að koma í framkvæmd sem munu skila sér langbest til tekjulægri hópa samfélagsins; með því að styrkja stöðu á leigumarkaði, styrkja almenna íbúðakerfið, stuðningur við fyrstu kaupendur og tekjulágt fólk á fasteignamarkaði sem vill kaupa sína fyrstu eign. Þar er verið að undirbúa tillögur. Það er því margt í gangi þegar kemur að þessum málum.

Síðan vil ég segja að ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanir sem teknar eru af hálfu stjórnvalda, lagafrumvörp þar á meðal, séu rýndar út frá áhrifum á réttindi og stöðu barna. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt skref og nú er að hefjast undirbúningsvinna við að forma með hvaða hætti það verður gert. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt vegna þess að um leið gerum við það að verkum að allar aðgerðir munu verða leiðréttar eða rýndar á fyrri stigum. Það hefur til lengri tíma auðvitað gríðarlega mikil áhrif.

Síðan er í gangi mjög umfangsmikil vinna innan félagsmálaráðuneytisins sem lýtur að málefnum barna. Að þeirri vinnu koma fulltrúar fjölmargra ráðuneyta, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúar ýmissa stofnana og félagasamtaka og þessi vinna er síðan undir forystu þverpólitískrar þingmannanefndar sem hefur það að markmiði að gera grundvallarbreytingar á uppbyggingu velferðarkerfisins er varðar börn í íslensku samfélagi.

Ég á von á að við förum að sjá með vorinu fyrstu tillögurnar fæðast úr þessu starfi og þarna er gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt, sama hvar þeir eru í kerfinu við að gera breytingar. Síðan verð ég að segja að þessi mál er ekki hægt að taka öðruvísi en að minnast á sveitarfélögin líka og tenginguna við þau vegna þess að það er svo mikið af þjónustu sem sveitarfélögin veita sem skiptir máli í þessu sambandi, að tengingin þar sé góð.

Að lokum vil ég segja að þrátt fyrir alla þá vinnu sem er í gangi, þessa miklu vinnu sem við erum með, þurfum við að bregðast við til skemmri tíma. Sumt af aðgerðunum sem ríkisstjórnin hefur ráðist í er gott, en ég hef ákveðið að setja af stað sérstakan aðgerðahóp á næstu dögum sem hefur það að markmiði að fara yfir skýrsluna sem var að koma, bregðast við UNICEF-skýrslunni þegar hún kemur næst með það að markmiði að koma fram með tillögur (Forseti hringir.) og framfylgja þeim í samstarfi við stjórnvöld til að uppræta barnafátækt hér á landi. Ég hef fulla trú á að það sé hægt en til þess þurfa allir að leggjast á eitt, bæði ríkisstjórn, Alþingi og við þurfum líka að fá sveitarfélögin með okkur í þessa vegferð.