149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þegar við fáum mál af þessu tagi til umræðu hefur umræðan tilhneigingu til að fara svolítið út og suður. Ef við erum að ræða málið út frá þeirri yfirskrift sem umræðan hefur, efnahagsleg staða íslenskra barna, getum við sagt að almennt sé efnahagsleg staða íslenskra barna góð, enda er efnahagsleg staða íslenskra heimila almennt góð og hefur farið batnandi á undanförnum árum.

Allar hagtölur sýna að hér hefur orðið gríðarleg kaupmáttaraukning á undanförnum árum sem hefur auðvitað áhrif á efnahag alls þorra fólks í landinu. Þegar tölurnar eru greindar sjáum við að þessi kaupmáttaraukning og þessi bati hefur náð til allra tekjuhópa í samfélaginu.

Það er líka rétt að hafa í huga þegar við tökum þátt í þessari umræðu að allar þær samræmdu mælingar sem liggja fyrir um jöfnuð og ójöfnuð gefa Íslandi góða einkunn. Þar er sú staða, þrátt fyrir það sem oft er haldið fram úr þessum ræðustól, að ójöfnuður hér er miklu minni en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við, hvort sem litið er til tekna eða eigna. Haldi menn öðru fram styðjast menn við eitthvað annað en samræmdar hagtölur.

Hins vegar verðum við auðvitað, eins og margir hv. þingmenn hafa réttilega nefnt í þessari umræðu, að horfa til þeirra hópa barna sem og foreldra sem búa við veikasta stöðu. Aðgerðir stjórnvalda, Alþingis, sveitarstjórna og annarra, hljóta að miðast við að bæta stöðu þeirra sem veikast standa að þessu leyti. Þeir hópar (Forseti hringir.) eru fyrir hendi í okkar samfélagi og okkar vinna á að miða að því að bæta þeirra stöðu, hvort sem um er að ræða einstæða foreldra, öryrkja eða þá sem búa við verst kjör á vinnumarkaðnum.