149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Ávinningurinn fyrir ríkissjóð af uppbyggingu atvinnugreinarinnar er í stuttu máli verulegur, sérstaklega í þeim samfélögum sem við sjáum taka á móti og hýsa þennan atvinnurekstur, eins og á suðurfjörðum Vestfjarða og hluta Austfjarða.

Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn sem af þessu eftirliti leiðir og vöktuninni hjá Matvælastofnun og Hafró verði kostaður, sérstaklega varðandi rannsóknaþáttinn, úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Frumvarpið gerir ráð fyrir að gjaldtaka verði hækkuð í þann sjóð og fyrirtæki greiða til hans.

Í öðru lagi er í burðarliðnum, og var í samráðsgáttinni, frumvarp til gjaldtöku af fiskeldisfyrirtækjunum sem standa mun undir öðrum þáttum þess kostnaðar sem kann að falla á ríkissjóð vegna aukins eftirlits og vöktunar.