149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hefði kannski kallað mig móðurlega frekar en föðurlega og veit ekki hvað merkingu ég á að leggja í það hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður gerir úr því veður nokkurt að ég hafi talað og kallað eftir samstöðu en að ekki sé samstaða innan ríkisstjórnarinnar. Þá ætla ég að gleðja hv. þingmann með því að það er algjör samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að við munum virða skuldbindingar okkar gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Það er líka samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að okkur finnist eðlilegt að leyfa okkur að ræða þau ólíku sjónarmið sem birtust bæði í meirihlutaáliti og minnihlutaáliti og fara yfir allar hliðar málsins. Ég stend reyndar alltaf með slíkri umræðu, hvar sem ég starfa.

Hv. þingmaður vill sérstaklega ræða afgreiðslu þingsins á málinu. Ég ræddi í upphaflegri ræðu minni að það er að sjálfsögðu eitt af því sem Mannréttindadómstóllinn tiltekur í úrskurði sínum sem Hæstiréttur hafði áður talið að hefði ekki vægi þannig að segja má að því sé snúið við. Um leið er horft til þess að þeir annmarkar sem hafi verið á afgreiðslu málsins safnist saman og að þetta sé einn þeirra sem verði til þess að brotið teljist það sem þeir kalla gróft. En ekki er endilega hægt að draga þá ályktun að afgreiðsla Alþingis ein og sér hefði haft slík áhrif.

Ég vil hins vegar segja að mér finnst enn blasa við okkur að fara yfir þau mál. Það mætti segja að það sem komi fram í dómsorði sé að Alþingi hafi ekki gert þann samanburð á þeim fjórum sem ekki voru á listanum yfir 15 efstu á lista hæfnisnefndar sem hefði þurft að gera. En þetta tel ég þó ekki, út frá dómsorði og þeim sérfræðingum sem hafa farið yfir það, að sé eitt og sér nægjanleg ástæða þess að niðurstaða Mannréttindadómstólsins er á þann hátt sem hún er.