149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

kjör öryrkja.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Kerfisbreytingin 2016, sem hv. þingmaður vitnar hér til, var afgreidd á Alþingi. En ég vil minna á að á þeim tíma var það Landssamband eldri borgara sem vildi að sú kerfisbreyting yrði kláruð en fulltrúar örorkulífeyrisþega gátu ekki stutt það. Við skulum halda því til haga hér að það er ástæða fyrir því að þessi kerfisbreyting var eingöngu kláruð fyrir eldri borgara á þeim tíma. Ég var ekki í ríkisstjórn þá en við skulum halda því til haga hvernig þetta var.

Í öðru lagi vil ég segja: Hv. þingmaður situr í þessum hópi. Ég hvet hann og aðra í þeim hópi til að klára. Ég er sammála hæstv. félagsmálaráðherra um að það er mjög mikilvægt að við séum að vinna út frá einhverri langtímasýn. Ég veit ekki betur, út frá þeim fregnum sem ég hef haft af þessum hópi, en að stóru línurnar liggi fyrir um framtíðarsýnina. Ég hvet þá sem sitja þarna til að ljúka þessari vinnu þannig að við getum látið þá fjármuni sem liggja fyrir á fjárlögum fara að vinna fyrir örorkulífeyrisþega. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar, hv. þingmaður.