149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu, sem kemur einmitt í kjölfar alþjóðlega neytendadagsins. Stjórnvöld eiga að stuðla að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði en ég tel að við þurfum að breyta skilgreiningunni á heilbrigðri samkeppni. Hvað eigum við við með heilbrigðri samkeppni?

Ég hygg að við neytendur gerum nefnilega miklu meiri kröfur en áður þegar oftar var verið að horfa til verðs, fyrst og fremst. Við gerum nefnilega auknar kröfur um að vita hver uppruni varanna okkar er, hvernig þær komust í hendur okkar og hvernig þær voru framleiddar. Voru launakjör og aðbúnaður þeirra sem unnu að þessum vörum í lagi? Hver er staðan varðandi kolefnissporin og umhverfismálin almennt?

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja fer því vaxandi. Ég fagna því þegar atvinnulífið hefur komið með auknum þunga inn í þá umræðu og sýnir okkur fram á að þau sjá hag sinn í því að vera samfélagsleg ábyrg.

Ég vil hvetja okkur hér inni, sérstaklega virðulegan forseta og hæstv. ráðherra, til að vinna áfram í þeim efnum að atvinnulífið komi skýrt þarna inn og við beitum öllum þeim ráðum og tækjum og tólum sem við höfum til að hvetja til aukinnar samfélagslegrar ábyrgðar hjá fyrirtækjum.

Ég vil líka fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra um aukna áherslu innan stjórnsýslunnar hvað þetta varðar. Ég veit að ráðherra kemur betur inn á matvælin á eftir, en við höfum svo sannarlega orðið vör við umræðuna um það að undanförnu hversu mikilvægt það er að við vitum hvaða matvælin okkar koma. Við erum best í stakk búin til að velja vörurnar. En til þess að getað sett raunhæft mat á þær vörur sem okkur standa til boða verðum við að vita allt um þær; hvaðan þær koma og hvernig þær voru framleiddar. Ég held að við séum á ágætri leið. Eins og komið hefur fram í máli margra er þörf á að ræða þessi mál frekar og setja þau á enn hærri stall í umræðunni.