149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:54]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni fjallaði ég svolítið um umgjörð neytendamála á Íslandi og hvaða breytinga er þörf. Látum ekki staðar numið þar, mig langar nú að fjalla aðeins um af hverju fyrirtækjum landsins er betur borgið í núverandi fyrirkomulagi og benda á að krafan um breytingar í þeim efnum mun ekki koma frá þeim heldur verður að koma frá almenningi, sterkum neytendasamtökum og vonandi stjórnvöldum.

Neytendur eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns ef á þeim er brotið í viðskiptum. Í sumum fyrirtækjum er jafnvel erfitt að komast í samband við einhverja aðila innan þeirra sem geta veitt upplýsingar, hvað þá fólk sem hefur heimild til að semja um einhverjar efndir.

Neytendur geta fræðilega séð leitað til dómstóla með kröfur sínar. Slíkt er hins vegar mjög kostnaðarsamt og flókið og oftast mjög langt þangað til niðurstaða fæst í slík mál. Fæstir hafa hreinlega hvorki tíma né orku til að standa í slíku.

Fyrst væri hægt að leita til einhverra þeirra úrskurðarnefnda sem starfa á Íslandi. Sumar þeirra gefa hins vegar bara álit og aðrar ná bara yfir þau fyrirtæki sem kjósa að beygja sig undir úrskurðarnefndina. Þessar úrskurðarnefndir hafa líka þann ókost að hægt er að skjóta niðurstöðum þeirra til dómstóla og þar af leiðandi lengja enn þá frekar ferlið að lokaniðurstöðu. Allt þetta gerir það að verkum að fólk fyllist vonleysi frekar en baráttumóð þegar brotið er á því í viðskiptum. Slíkt verður, virðulegi forseti, aðeins leiðrétt með öflugum málsvara neytenda sem getur tekið slaginn á móti óskiljanlegum skilmálum, biðröðum í símkerfum og handahófskenndum skilareglum. Eins vil ég benda á þann hagsmunaárekstur sem eðli málsins samkvæmt er vegna þess að neytendamál heyra undir sama ráðuneyti og atvinnumál. Ef upp koma hagsmunaárekstrar, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, langar mig að beina til hæstv. ráðherra þeirri spurningu hvort verði ofan á, hagsmunir neytenda eða fyrirtækja.