149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar í þá átt að kveða sérstaklega á um réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál til að njóta þjónustu táknmálstúlka í dómsmálum. Þá er kveðið á um að ríkissjóður greiði kostnað vegna starfa táknmálstúlka í þeim tilvikum sem skýrslugjafi í einkamáli reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta sem og vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem geta ekki fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli við skýrslugjöf, en samkvæmt gildandi lögum er það sá sem kallar til slíkan mann sem greiðir þann kostnað.

Þá er einnig með frumvarpinu brugðist við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi og lagt til að heimilt verði að flytja mál munnlega þegar einkamáli er áfrýjað en gagnaðili tekur ekki til varna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur frá Félagi heyrnarlausra ásamt lögfræðingi félagsins, Karólínu Finnbjörnsdóttur, Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Rannveigu Sverrisdóttur og Gauta Kristmannsson frá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Nefndinni barst umsögn frá dómstólasýslunni sem gerði engar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi að ríkissjóður greiði þóknun og annan kostnað vegna starfa táknmálstúlks í einkamálum í þeim tilvikum sem skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Þá er í frumvarpinu lagt til að ríkissjóður greiði jafnframt kostnað vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem ekki geta fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála er varða skýrslutökur fyrir dómi og um skýrslutöku hjá lögreglu. Breytingarnar eru í samræmi við þær breytingar sem lagt er til að gera á lögum um meðferð einkamála um störf táknmálstúlka og kunnáttumanna og er ætlað að tryggja að ákvæði lagabálkanna tveggja um þetta efni séu sambærileg og samhljóða að breyttu breytanda.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem gera ráð fyrir þeim möguleika að í þeim tilvikum þegar stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti Íslands verði mál þrátt fyrir það flutt munnlega. Sú ótvíræða meginregla gildir aftur á móti að slíku máli verður að jafnaði lokið án munnlegs flutnings.

Samhljómur var á meðal gesta um að frumvarpið fæli í sér réttarbót fyrir þá sem reiða sig á íslenskt táknmál í dómsmálum. Hins vegar var athygli nefndarinnar vakin á því að taka þyrfti til athugunar greiðslu fyrir táknmálstúlkun í samskiptum réttargæslumanna og verjenda við skjólstæðinga sína, þ.e. að ekki væri tryggð greiðsla fyrir táknmálstúlkun vegna samskipta við undirbúning dómsmála. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að afstaða dómsmálaráðuneytisins sé sú að það mál sé annars eðlis en það sem efni frumvarpsins lýtur að og þurfi nánari athugunar við. Nefndin leggur áherslu á að það er liður í réttlátri málsmeðferð að einstaklingur geti undirbúið sig fyrir dómsmál og telur þess vegna mikilvægt að réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál verði tryggð í undirbúningi dómsmála. Nefndin tekur þó undir sjónarmið ráðuneytisins um að það mál sé annars eðlis en um það sem hér ræðir en beinir því til dómsmálaráðuneytisins að taka þessi mál til nánari skoðunar.

Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að almennt þyrfti að endurskoða fyrirkomulag prófa og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur. Samhliða slíkri endurskoðun væri æskilegt að endurskoða hvort táknmálstúlkar ættu jafnframt að þreyta próf til að öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og þar með að láta táknmálstúlka falla í hóp löggiltra dómtúlka. Í þeirri umfjöllun var nefndinni bent á að samkvæmt 8. gr. reglugerðar um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 893/2001, er heimilt að veita löggildingu til starfa sem dómtúlkur fyrir heyrnarlausa. Það ákvæði eigi sér þó ekki stoð í lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 148/2000. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að með táknmálstúlkum er átt við þá sem hafa lokið að minnsta kosti BA-prófi í táknmálstúlkun. Í samhengi við það var nefndinni bent á að í náminu væri kennd svokölluð samfélagstúlkun á þriðja námsárinu en ekki væri unnið með dómtúlkun sem krefðist töluvert meiri reynslu.

Nefndin telur rök hníga til þess að farið verði í endurskoðun löggjafar á þessu sviði sem og fyrirkomulags námskeiða og prófa. Auk þess telur nefndin athugandi hvort setja þurfi skilyrði fyrir táknmálstúlka til að öðlast rétt til að túlka fyrir dómi, en tryggja þarf fagþjónustu við dómskerfið sem og um leið réttaröryggi við meðferð mála fyrir dómi. Að því sögðu beinir nefndin því til dómsmálaráðuneytisins að taka þessi atriði til nánari skoðunar sem og fara yfir álitamál um hvort fyrrnefnd reglugerð eigi sér stoð í lögum.

Nefndin leggur til að öllu samanlögðu að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir álitið rita sá sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður og framsögumaður, Birgir Ármannsson, Gísli Garðarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Valgerður Sveinsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.