149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þetta mál. Ég byrja á því að rifja það upp að ég sat hér sem varamaður árið 2004 þegar þáverandi hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti frumvarp um íslenska táknmálið, reyndar þá í annað sinn, og var ég meðflutningsmaður ásamt mörgum öðrum þingmönnum. Mér fannst það mikill heiður að fá að upplifa það að sitja með þingmanni sem nýtir táknmál sem sitt tungumál. Það er auðvitað allt annar veruleiki en við hin búum við. Við höfum svo sem lent í því í gegnum tíðina að túlkaþjónustan hafi ekki verið fullfjármögnuð þegar kemur að ýmsum viðburðum hjá fólki eða varðandi aðstoð sem það þarf á að halda.

Í nefndarálitinu segir að ríkissjóður muni greiða þóknun og annan kostnað vegna starfa táknmálstúlka í einkamálum þar sem viðkomandi reiði sig á táknmál til samskipta.

Ég veit ekki hvort ég er alveg sammála þeirri nálgun sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu og eins í niðurstöðu allsherjar- og menntamálanefndar. Það er alla vega ekki tekið á því og það sagt vera sjálfstætt mál þegar verið er að undirbúa fólk undir skýrslugjöf eða fyrirtöku eða eitthvað slíkt. Ég get ekki skilið að það séu aðskilin mál. Það væri ágætt ef einhver tæki til máls og reifaði það hvers vegna þetta sé hugsað sem annað mál, vegna þess að hluti af því að fara í dómsal eða annað slíkt og fá aðstoð þar er að maður geti undirbúið sig. Ég átta því mig ekki alveg á því af hverju þetta varð niðurstaðan, þ.e. að hafa þetta aðskilið, og finnst það svolítið sérkennilegt.

Mér finnst hins vegar margt áhugavert hérna. Lögð er til ný málsgrein sem bætist við 10. gr. þar sem rætt er um störf táknmálstúlka. Þeir eru ekki nefndir í réttarfarslöggjöf okkar. Það er kannski eitt af því sem átti eftir að leiðrétta af því að samhliða því frumvarpi sem ég nefndi áðan og var lagt fram, var lagður fram bandormur sem tók á hinum ýmsu lögum. Kannski hefur eitthvað orðið út undan 7. júlí 2011 þegar lögin urðu að veruleika löngu eftir að frumvarp um málið var fyrst lagt fram. Það var lagt fram töluvert áður. Hv. þm. Svavar Gestsson gerði það líka á sínum tíma. Eins og áður sagði lagði hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir frumvarpið fram árið 2004, þegar ég fékk að vera með, og einnig einu sinni fyrir þann tíma. Þá er spurning hvort viðmiðið varðandi bandorminn hafi ekki haft verið undir, þ.e. um hversu víðtækt málið þyrfti að vera.

En alla vega er hér gerð tilraun til þess að reyna að laga það sem þurfti að laga og gera það sem þarf að gera, sem er mjög gott mál. Mér finnst ágætt að hér sé það rætt að táknmálstúlkar eru ekki löggilt starfsstétt. Auðvitað er rétt að við tökum það sérstaklega fram þegar um dómsmál er að ræða. En þetta fólk sækir sérhæft háskólanám og að það þurfi BA-próf á auðvitað að teljast gott og gilt.

Hér er svolítið talað um að táknmálstúlkar séu ekki dómtúlkar, sem er alveg rétt. Það má velta því upp hversu margir þeir eru sem lært hafa táknmálstúlkun, sem ég veit hreinlega ekki, en væri áhugavert að komast að því, því að ég held að við þurfum að fjölga þeim sem það læra. Það skiptir auðvitað máli þegar fjallað er um sérhæfingu að oft felst lögfræðilegt orðfæri í því sem táknmálstúlkar fást við, sem er ekkert endilega kennt í grunnnáminu. Það væri vissulega vert að kanna það í baklandi þeirra hvort ástæða sé til að gera það.

En hér er líka eðli máls samkvæmt horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk, sem fullgiltur var 23. september 2016, þar sem tryggja á fötluðu fólki aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra. Á málsmeðferðin þar af leiðandi að lagast að þeirra aðstæðum.

Annað sem tekið er fyrir, þar sem talað er um skýrslutöku fyrir dómi, fjallar um skýrslutöku hjá lögreglu. Þar er verið að leggja til breytingu sem kom til vegna dóms Mannréttindadómstólsins í máli Súsönnu Rósar Westlund. Hafði hún ekki verið talin fá réttláta málsmeðferð. Breytingarnar sem hér eru lagðar til eru hugsaðar til að mæta því.

Haft var samráð við Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þau vöktu athygli á að kannski ætti að taka til athugunar greiðslur fyrir táknmálstúlkun í samskiptum réttargæslumanna og verjenda við skjólstæðinga sína. Það er það sem ég vitnaði til áðan þegar ég talaði um að mér fyndist það ekki vera annað mál. Mér finnst einhvern veginn ekki hægt að aðgreina þetta tvennt. Ef við sem hér stöndum og tölum, stundum óþarflega mikið, hefðum ekki haft tækifæri til þess að undirbúa okkur með eðlilegum hætti, stæðum við verr að vígi. Mér finnst þetta ákvæði mjög sérstakt af því að það er annars mikil réttarbót sem verið er að gera í frumvarpinu. En mér finnst ekki gengið alla leið eins og þyrfti að gera. Ég sé ekki að þetta gangi upp.

Í nefndarálitinu er talað um táknmálstúlkanámið, hvort hægt sé að koma því við að bæta það með tilliti til þess sem hér er undir.

Mér fannst gott að sjá að nefndin telur ýmislegt hníga að því að farið verði í endurskoðun löggjafarinnar á þessu sviði, bæði hvað varðar endurskoðun námskeiða og prófa og annars slíks, og svo hvort þeir sem túlka fyrir dómi þurfi að fá einhver tiltekin réttindi t.d. varðandi fagmálið sem þar er undir. En það má svo sem segja að táknmálstúlkar starfi úti um allt með skjólstæðingum sínum og mjög víða er fagmál talað. Þetta getur þó talist talsvert frábrugðið, svona upp á réttaröryggi og annað slíkt.

En ég hefði gjarnan viljað sjá að þetta hefði verið haft hér undir og vona að einhver sem á eftir að tala hér geti útskýrt hvers vegna það varð ekki niðurstaðan, vegna þess að á sínum tíma, þegar lögin voru sett árið 2011, var hér fjölmenni á pöllunum af heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki sem fagnaði því sérstaklega mikið að þeirra mál væri nú orðið að lögum. Í ljósi þess hversu mikil réttarbót það var og að hafa aðgang að túlkum við ýmsar erfiðar aðstæður í lífi fólks held ég að oft gerum við okkur ekki grein fyrir hlutunum frá A til B eða A til C eða eitthvað. Mér finnst eins og hér vanti hluta úr keðjunni til þess að hún geti virkað að fullu leyti.

Hvernig á fólk að undirbúa sig? Á það að þurfa að kaupa sér einhverja aðra þjónustu af einhverjum tilteknum kvóta sem því er úthlutað í einhverja tiltekna sérfræðiþjónustu, sem getur svo orðið til þess ef fólk verður veikt eða eitthvað slíkt getur það ekki fengið þjónustu nema hugsanlega með miklum barningi vegna þess að það er búið með einhvern kvóta?

Réttindabarátta heyrnarlausra og heyrnarskertra í þessu máli tók gríðarlega langan tíma. Ég held ekki að bandormurinn hefði annars verið undir hér, en hann var lagður fram af manneskju sem bjó við þær aðstæður að þurfa að nýta sér þessa þjónustu.

Forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta neitt lengra. Ég vildi bara koma inn á þetta, því að mér finnst það akkillesarhæll á málinu að þetta skuli ekki vera með.