149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

657. mál
[17:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur gjarnan verið sagt um okkur þingmenn að við tölum of lítið í EES-málum og látum þau okkur litlu varða. Þau renni svolítið (Utanrrh.: Nei, nei.) í gegnum þingið. — Það var nú sagt við mig í morgunútvarpi Bylgjunnar, hæstv. ráðherra, þar sem við vorum einmitt að ræða stöðu EES-samningsins yfirleitt. Ég held að í fyrri umr. í þinginu sé ekki vaninn að þau mál séu rædd mikið, en ég vil meina að afskaplega góð vinna af hálfu utanríkismálanefndar fari fram um þau mál.

Það sem mér þykir í þessu tiltekna máli vera ástæða til að vekja aðeins athygli á er að talað er um tvenns konar sjóði sem þessi reglugerð nær yfir, þar sem annars vegar er verið að tala um EuVECA, eins og hún heitir, og geymir sameiginlegt regluverk um ákveðna tegund sjóða, þ.e. evrópska áhættufjármagnssjóði, og rekstraraðila þeirra. Í gerðinni er kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að unnt sé að markaðssetja slíkan sjóð. Hér er sagt að þau skilyrði varði m.a. samsetningu eignasafns, þ.e. fjárfestingarheimildir sjóðanna, hæf fjárfestingarmarkmið þeirra, fjárfestingartæki sem þeim er heimilt að beita og flokka fjárfesta sem eru hæfir til að fjárfesta í þeim samkvæmt samræmdum reglum á innri markaðnum. Tilgangur reglugerðarinnar sé að stuðla að vexti og nýsköpun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur kannski oft heyrst úr munni Vinstri grænna að allt sem lýtur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og nýsköpun sé eitthvað sem við höfum talað fyrir. Ég held að það eigi hér við líka varðandi fjármögnun þessara fyrirtækja þegar þau eru á sinni upphaflegu vegferð.

Hins vegar er í fjórðu reglugerðinni, sem heitir EuSEF, talað um félagslega framtakssjóði. Þar er svo sem það sama undir, þ.e. þetta sameiginlega regluverk. Þar er verið að tala um samsetningu eignasafnsins, þ.e. fjárfestingarheimildir sjóðanna, og markmið eins og í hinu. Talað er um að tilgangurinn sé að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið og hægt sé þá að velja evrópska félagslega framtakssjóði. Og að þau fyrirtæki sem starfa samkvæmt slíkum markmiðum geti sótt sér fjármagn á Evrópska efnahagssvæðið.

Mér finnst þetta vera mjög jákvætt mál og mér sýnist að hér sé verið að gera þeim fyrirtækjum auðveldara fyrir að geta sótt sér fjármuni sérstaklega í árdaga þess að fyrirtæki eru stofnuð. Síðan er líka rætt um Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina þar sem talað er um skyldu stjórnvaldsins sem hefur með eftirlit að gera og annað slíkt.

Ég vildi bara rétt aðeins koma inn á þetta mál, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem ég var í í útvarpinu um daginn þar sem talað var um það að við létum þessi mál okkur litlu skipta. Ef þetta gengur eftir finnst mér jákvætt að sjá að ef við innleiðum þetta gefist íslenskum aðilum kostur á að starfrækja og markaðssetja slíka sjóði sem við höfum ekki tækifæri til að gera í dag, en á sama tíma gefist aðilum innan okkar sameiginlega Evrópska efnahagssvæðis tækifæri á að gera slíkt hið sama.

Virðulegur forseti. Ég vildi rétt aðeins drepa á þessu máli af því að ég tel að þetta sé verulega gott mál.