149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

657. mál
[17:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vildi höggva í sömu knérunn og hv. þingmaður, samflokksmaður minn og félagi, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varðandi það sem fram kemur í þingsályktunartillögunni um félagslega framtakssjóði.

Eins og vanalega þegar hæstv. utanríkisráðherra mætir í þingsal til að mæla fyrir innleiðingum og tilskipunum EES-samningsins er það mál af hinu góða. Líkt og flokkssystir mín tel ég þetta ákvæði, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 346/2013, um evrópska félagslega framtakssjóði, mjög góða.

Það hefði verið ágætt að fá fram hvernig hæstv. utanríkisráðherra sér fyrir sér áhrif þessa góða máls. En eins og hæstv. ráðherra boðaði munu þær innleiðingar kalla á frumvörp frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til innleiðingar á reglugerðunum. Við getum búist við því á löggjafarþingi 2019–2020.

Eins og fram kom í máli þingmannsins á undan mér horfum við fram á að hér er um ákveðna tegund sjóða að ræða, evrópska félagslega framtakssjóði og rekstraraðila þeirra, þar sem kveðið er á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að unnt sé að markaðssetja sjóð sem svonefndan EuVECA-sjóð eða evrópskan félagslegan framtakssjóð.

Líkt og segir hér, með leyfi forseta, varða þau skilyrði annars vegar: „samsetningu eignasafns, þ.e. fjárfestingarheimildir sjóðanna, hæf fjárfestingarmarkmið þeirra, fjárfestingartæki sem þeim er heimilt að beita og flokka fjárfesta sem eru hæfir til að fjárfesta í þeim samkvæmt samræmdum reglum á innri markaðnum.“

Tilgangur reglugerðarinnar er, eins og fram hefur komið, að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið að finna og velja evrópska félagslega framtakssjóði og jafnframt að auðvelda fyrirtækjum með félagsleg markmið að sækja sér fjármögnun á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta er af hinu góða og í takt við þá þróun sem við höfum séð þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og lífeyrissjóða, sem heldur betur þarf að taka í gagnið og auka til muna á Íslandi. Ég veit að stjórnir íslenskra lífeyrissjóða hafa verið að skoða það ítarlega og vel. Ég held líka að segja megi um þær reglugerðir að þær gefi okkur hér á landi einstakt tækifæri til að útfæra markmið og reglugerðir enn frekar í því frumvarpi sem verður lagt fram, einmitt þau markmið sem sjóðir þurfa að setja sér þegar kemur að svokölluðum félagslegum framtakssjóðum.

Það væri ágætt að fá einhverjar vísbendingar um það hvernig hæstv. utanríkisráðherra sér þetta fyrir sér. Þegar kemur að því að taka upp gerðir hefur Ísland, eins og kemur fram í inngangi málsins, á tímabilinu 1994–2016 aðeins tekið upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á því tímabili. Það hefði sannarlega verið gott að vera löngu búin að taka reglugerðina frá 2013 upp í íslenskan lagabálk því að þetta er af hinu góða og hið besta mál.

Ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til dáða og koma með fleiri reglugerðir og þingsályktunartillögur inn á okkar borð því að yfirleitt má segja, og að ég held fullyrða, að flestar ef ekki allar eru til þess að bæta íslenskt lagaverk, eins og EES-samningurinn hefur gert fyrir íslenskt samfélag.