149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þarf ég í sjálfu sér ekki að hafa mikið álit á því hvort sú ofsadrykkja sem þá var hafi verið verri en það ástand sem nú er, vegna þess að tölurnar segja okkur að ástandið þá var töluvert betra, þ.e. heimilisofbeldi var minna, líkamsárásir voru færri. Ég hef töluverða reynslu af því að léttvín og bjór gerir mann í sjálfu sér alveg jafn fullan og önnur áfengisdrykkja, maður er bara aðeins lengur að ná markinu. Ef menn drekka í óhófi rauðvín eða bjór þá verða þeir u.þ.b. jafn fullir og ef þeir hefðu drukkið eins og eina vodkaflösku. Eins og ég segi, þetta tekur aðeins lengri tíma en takmarkið er það sama og lokaniðurstaðan er sú sama. Þannig að þessi svokallaða hófdrykkja og drykkjumenning sem menn eru að dásama hér hefur bara skilað auknu heimilisofbeldi. Hún hefur skilað auknu ofbeldi á götum úti. Hún hefur ekki skilað neinu, og auknum sjúkdómum í þokkabót.