149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort sá sem selur áfengið er ríkisstarfsmaður eða eitthvað annað. Það er ekki það sem þetta mál snýst um. Ég svaraði ekki spurningunni um hvort það ætti að fara sömu leið með vín eins og tóbak. Það gæti vel verið að það væri sniðugt að gera það, að takmarka aðgengið. Þá gætum við fengið væntanlega sömu niðurstöður og voru með tóbakið, þ.e. áfengisneysla myndi snardragast saman. Það myndi koma öllum til góða, ríkissjóði, heilsu þjóðarinnar, börnum. Hverjir eru það t.d. sem hafa í gegnum tíðina lagst gegn því að við samþykkjum frumvarp af þessum toga? Það eru Barnaheill, sálfræðingar, Læknafélagið, landlæknir. Það eru allir sem koma nálægt heill fjölskyldna í landinu, allir hafa sagt: Ekki gera þetta. Ég, eins og ég segi, er stundum þrjóskur, en þegar allir nema Félag stórkaupmanna, Hagar og Verslunarráð, segja: Ekki selja áfengi á öllum þessum stöðum, þá hlusta ég.