149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í orðum hv. þingmanns liggur einmitt að frelsi eins er helsi annars. Þannig að ef frelsi einkabatterísins á að verða til þess að auka verslunarfjölda á ríkið að draga sig í hlé. Er það tilgangurinn? Er það nauðsynlegt? Af hverju á ríkið að draga sig í hlé?

Ríkið er núna að selja áfengi á nokkrum stöðum. Þeim hefur ekki fjölgað þar sem fólkið er flest. Þeim hefur fjölgað þar sem pósthús hafa verið lögð niður, eins og ég benti á. Þannig að heildarframboð á verslunum ÁTVR hefur í sjálfu sér, ef maður leggur þetta tvennt saman, verið í svipuðu formi núna í 20 ár eða svo.

Ég spyr aftur: Hvaða upplýsingar hefur hv. þingmaðurinn um það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki, sem Læknafélagið hefur ekki, sem landlæknir hefur ekki, um að fjölgun útsölustaða og aukið aðgengi að víni muni ekki auka drykkju?