149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Virðulegur þingmaður hefur ekki fylgst mikið með þjóðmálaumræðunni síðustu áratugi ef hún telur að ekki hafi verið rætt um aukið aðgengi að áfengi innan ÁTVR. Þetta hefur verið rætt töluvert í samfélaginu og ég er alveg viss um að einhverjir hér hafa tekið þátt í því. Í einu orðinu eru lagðar til auknar auglýsingar á áfengi. Það er gert í frumvarpinu. Hér er talað um samfélagsmiðla og netmiðla og allt það. Heimild á auglýsingum í íslenskum fjölmiðlum eykur auglýsingar á áfengi. Er hv. þingmaður sammála mér um að enginn eyði peningum í auglýsingar bara sisvona heldur geri hann það til að reyna að auka sölu á vöru sinni? Í hinu orðinu eru aðrir sakaðir um hræsni fyrir að vilja ekki standa að meiri forvörn. Hér er lögð til heimild til að auka sölu með annarri hendinni en með hinni berja menn sér á brjóst og segja að efla þurfi forvarnir. Er þetta kannski hræsni, hv. þingmaður?