149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:16]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur kærlega fyrir mjög svo góða ræðu. Það fyrsta sem ég vil taka undir með þingmanninum er að áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Við eigum að reyna í lengstu lög að líta ekki á þá vöru sem slíka. Það er ástæða fyrir því að fyrirkomulagið er eins og það er í dag og það er ástæða fyrir því að 74% þjóðarinnar sögðu vorið 2018 að þau vildu ekki breytingar á því fyrirkomulagi sem við erum með í dag.

Mig langar aðeins að velta upp því sem hv. þingmaður kom síðast inn á ræðunni, sem var af hverju það væru aðeins tilmæli að auka fjármagn í lýðheilsu. Af hverju er ekki kveðið fastar að orði? Af hverju er það ekki fest í sessi? Inn í það finnst mér blandast einhvers konar misskilningur sem felst í því að halda því fram að aukið aðgengi hafi í rauninni engar afleiðingar en svo í hinu orðinu auka fjármagn í lýðheilsu og setja það innan sviga sem tilmæli. Þetta er það sem ég er mest að velta fyrir mér núna.