149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mér finnst virðingin svolítið tekin úr sambandi hvað varðar meðferð vörunnar. Vissulega er hún lögleg þótt hún hafi því miður of marga neikvæða eiginleika. Við erum að takast á við kostnað í samfélaginu, fjölskyldur og börn sem ráða engu um aðstæður sem þau standa frammi fyrir. Ætti það ekki að vera partur af þessu öllu saman að reyna að vega það og meta? Það væri áhugavert að vita, þó að ég hafi kannski ekki mikla trú á því, hvort talsmenn frumvarpsins hafi látið kanna hvaða áhrif aukin áfengisneysla gæti haft á fjölskyldur, ungt fólk og börn. Það er svo mikið talað um að unglingadrykkja hafi minnkað, en hefur neysla unglinga breyst og færst annað? Æ fleiri hafa valið sér þann lífsstíl að neyta ekki áfengis. Það skiptir máli að kanna hluti af slíkum toga sem hafa áhrif á fjölskyldur, sérstaklega með tilliti til þess hvort þeir hafi áhrif á börn.

Mér finnst málið algjör tímaskekkja. Þetta var fyrsta mál Sjálfstæðismanna eftir hrun og það virðist ætla að lifa endalaust. Ég skil eiginlega ekki að við séum að eyða tíma okkar í slík mál sem hér eru þegar við gætum verið að ræða mörg önnur brýn mál sem ég efast ekki um að Viðreisn (Gripið fram í.) hefur fram að færa. Ég vil síður eyða tíma allsherjar- og menntamálanefndar í þetta mál. Í gegnum tíðina, þegar það hefur verið lagt fram, hefur það fengið gríðarlegt pláss, tekið gríðarlegan tíma frá öðrum mjög mikilvægum málum.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé komið fram að ekki er vilji fyrir þessu máli.