149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Tilurð þessa máls sem hér er til umræðu var ágætlega rakin í framsöguræðu formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það kemur ágætlega fram í því áliti sem nefndin tók saman hver eru helstu atriði þeirrar umsagnar sem finna má í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil við þetta tækifæri þakka bæði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og atvinnuveganefnd Alþingis fyrir þá vinnu sem liggur í þessu áliti og umsögn nefndanna.

Meginatriðið er það að Ríkisendurskoðun telur að það þurfi að ráðast í ýmsar úrbætur til að Fiskistofa geti sinnt þeim viðfangsefnum sem henni er falið samkvæmt lögum svo að hún geti sinnt sínum verkum með skilvirkum og árangursríkum hætti. Eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi áðan hef ég skipað fimm manna verkefnisstjórn um þetta mál undir forystu Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að fara yfir þær ábendingar sem koma fram í skýrslunni og móta tillögur eftir atvikum um þau atriði sem betur mega fara.

Með Sigurði Þórðarsyni verða fjórir einstaklingar aðrir í verkefnisstjórninni. Það eru þau Brynhildur Benediktsdóttir hagfræðingur, Elliði Vignisson sveitarstjóri, Hulda Árnadóttir lögmaður og Oddný G. Harðardóttir alþingismaður. Til að styðja við starf þessarar nefndar sem á að bera hitann og þungann af úrvinnslu tillagna hef ég sömuleiðis kallað eftir tilnefningum fjölda aðila sem tengjast þessu verkefni með einum eða öðrum hætti og þeir eru um 13, auk þess sem ég hef kallað eftir tillögum fulltrúa allra þingflokka á Alþingi.

Helstu hagaðilar í verkefninu sem mynda þessa 21 manns verkefnisstjórn, í rauninni samráðsvettvang, eru Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofa, Hafnasamband Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslan, Landssamband smábátaeigenda, Matís, Matvælastofnun, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök smærri útgerða og Sjómannasamband Íslands. Auk þess koma fulltrúar allra þingflokka, eins og ég nefndi áðan, að þessu verki. Á milli funda þessa stóra samráðshóps mun fimm manna verkefnishópurinn, sem ég gat um áðan, vinna úr því sem þar kemur fram.

Við erum á frumstigi þessa máls, erum að byrja að vinna okkur niður í því hvernig við ætlum að takast á við það verkefni sem skýrslan ber með sér að vinna þurfi. Í burðarliðnum er verkefnisáætlun. Ég hef lagt á það áherslu í erindisbréfi til verkefnisstjórnarinnar að tekin verði til skoðunar og mat lagt á nokkur viðfangsefni sem ég ætla að geta um hér og gera tillögur til úrbóta á verklagi og umsýslu eftir því sem þurfa þykir.

Í fyrsta lagi þarf að skoða samstarf og verkaskiptingu Fiskistofu og annarra opinberra aðila sem sinna eftirliti með fiskveiðum. Í öðru lagi þarf að fara yfir og endurskoða verklag og aðferðir Fiskistofu við áhættumat og ekki síður stýringu á forgangsröðun verkefna sem snúa að vigtun sjávarafla og brottkasti sem mikið er nefnt í úttektinni. Við þurfum að skoða, eins og var ágætlega rakið í framsöguræðunni áðan, hvort nýta megi í ríkari mæli nýja tækni við eftirlit með fiskveiðum, svo sem myndavélaeftirlit eða fjarstýrð flygildi. Við þurfum sömuleiðis að gera gangskör í því að bera saman eftirlit með veiðum erlendra skipa í okkar lögsögu við það eftirlit sem okkar skip sæta í lögsögu annarra ríkja, þar með talið fjareftirlit innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Við þurfum að skoða sömuleiðis hvort viðurlagaheimildir sem beita má við brotum á lögum og reglum séu fullnægjandi. Jafnframt að fara yfir eftirlit með framkvæmd laga um yfirráð lögaðila, einstaklinga og annarra einstakra aðila yfir hámarkshlutdeild, hvort þau séu fullnægjandi, þ.e. með tillliti til 13. og 14. gr. eins og hefur verið rakið hér. Jafnframt þurfum við að vera á vaktinni varðandi þær breytingar og þau viðhorf sem efst eru á baugi hjá öðrum þjóðum varðandi fiskveiðieftirlit. Við þekkjum það að sums staðar er þessu afar vel sinnt meðan aðrir hafa fremur látið þetta drabbast.

Ég vil nefna að lokum að í þeirri verklýsingu sem ég er hér að fara yfir í nokkurri fljótaskrift þurfum við sömuleiðis að skoða ábendingar sem lúta að þeim verkefnum sem beinlínis heyra undir ráðuneytið sjálft og snúa að yfirstjórn og eftirliti ráðuneytisins með þessari undirstofnun sinni. Það kemur ágætlega fram í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvaða annmarkar hafa verið á því fyrirkomulagi, um framsal á stjórnunarheimildum en ekki síður hvernig hlutast er til um það með hvaða hætti stofnuninni er ætlað að starfa. Þetta er hvort tveggja það sem þarf beinlínis að fara í, burt séð frá fiskveiðieftirlitinu. Þetta lýtur fyrst og fremst að yfirstjórnarheimildum ráðuneytisins og þeirri framkvæmd.

Ég geri ráð fyrir því, forseti, að þessari vinnu ljúki á haustmánuðum í formi tillagna frá verkefnisstjórninni til ráðuneytisins eða skýrslu. Ég hef enga trú á öðru en að ágætissátt ríki um þetta mikilvæga verkefni. Í umræðum öllum um þetta mál hefur komið fram að það er töluverður einhugur meðal þingmanna um að þetta geti og eigi að vera betur unnið en hefur verið.

Ég er sömuleiðis bjartsýnn á að þær tillögur sem út úr þessu starfi munu koma verði gagnlegar, sérstaklega þegar ég horfi yfir þær tilnefningar sem komnar eru um fulltrúa í hinn breiða samráðshóp. Ég er mjög bjartsýnn á að sú þekking sem þar kemur að verki muni skila sér eftir það starf í tillögum og hugmyndum um hvernig við getum betur tryggt það nauðsynlega eftirlit sem með nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar þarf að vera.