149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, það er full ástæða til að taka þetta alvarlega. Ég þakka sömuleiðis góð orð og tek undir þau orð sem hv. þingmaður hafði um vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í málinu.

Það er vissulega einnig eitt og annað sem er vel gert líka, hvort tveggja hjá eftirlitinu og ráðuneytinu og öllum þeim sem þessu tengjast og hjá þeim sem vinna í greininni líka. Ég meina, þetta er eins og í öðru að við erum oft og tíðum að glíma við skussana, ef maður má orða það svo, sem brjóta af sér, hvort heldur það er lögreglan eða eftirlitsstofnanir okkar, að það eru skussarnir sem varpa rýrðinni á heilu greinina.

Ég vil því undirstrika að stærstur hluti af þeim sem umgangast fiskveiðiauðlindina gerir það af ábyrgð og virðingu. Það eru alltaf tilvik þar sem við getum bætt okkur. Ber að taka því alvarlega að leita leiða til að bæta úr þeim vanköntum sem þar eru. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða formi við munum fá tillögur þeirrar vinnu sem við erum að hefja núna. Það kann að vera mjög breytilegt eftir þeim viðfangsefnum sem þar er við að glíma. Ég treysti bara á að samráðshópurinn ásamt verkefnisstjórninni muni vinna úr því. Og það sem brýnast er og einfaldast að vinna skili sér í formi einhvers konar tillagna sem annaðhvort koma fullbúnar í formi lagabreytingartillagna eða þá í því formi að ráðuneytið geti unnið ágætlega hratt og vel úr þeim sjónarmiðum með ábendingum sem þar koma fram.

Það verður dálítið að ráðast af eðli máls hverju sinni vegna þess að það er ekki einhver ein lína í þessu verki. Það eru margir fletir sem þarf að taka á og sumt er tiltölulega auðunnið eins og t.d. það sem lýtur að eftirlitshlutverki og yfirstjórn. Aðra þætti um frekari forgangsröðun eða greiningar verður flóknara að vinna.