149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég skal játa það hér og nú að mér brá nokkuð við þegar ég sá skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu í fyrsta sinn, og þegar ríkisendurskoðandi mætti fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fór yfir efni hennar. Í sjálfu sér finnst mér skýrsla Ríkisendurskoðunar áfellisdómur yfir sjávarútvegsráðherrum nú um nokkuð langan tíma, og líka áfellisdómur yfir Alþingi, yfir fjárveitingavaldinu, yfir þeim sem smíðuðu fjárlagatillögur og að menn skyldu ekki gera sér grein fyrir ástandinu. Ég játa það að t.d. á árunum 2013–2016 gerði ég mér persónulega ekki grein fyrir því hversu illa þessi stofnun væri farin peningalega.

Með virðingu fyrir orðum hæstv. ráðherra um að allar eftirlitsstofnanir vilji gjarnan fá meiri peninga til umráða er þetta ekki hvaða eftirlitsstofnun sem er, þetta er eftirlitsstofnun sem hefur eftirlit með fjöregginu okkar, sem hefur eftirlit með umgengni um okkar höfuðauðlind. Ég sé ekki betur, af því að við breytum ekki fortíðinni en getum lært af henni, en að þær tillögur og þær ábendingar sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun bendi til þess að meðferð afla, þ.e. vigtun, hafi verið ábótavant og sé það enn. Það virðist sem menn hafi bara almennt treyst þeim sem ganga um auðlindina til þess að haga sér með skikkanlegum hætti. Ég er ekki að kasta rýrð á það eða tortryggja, en sem gamall innheimtumaður ríkissjóðs verð ég samt að viðurkenna að traust í meðförum svona hagsmuna getur verið varasamt, þ.e. ef eftirlitið er ekki nóg til að sannreyna að þeir sem þar um ganga fari rétt með. Það er eins og eftirlit með sköttum o.s.frv., þetta er ekkert öðruvísi eftirlit, nema að þetta er eftirlit með okkar stærstu auðlind.

Það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar snýr að tvennu. Það snýr að lagaóvissu, þ.e. óvissu um það hvernig samstarf ráðuneytis og stofnunar er og hvernig stofnunin vinnur inn á við og þetta langtímafjársvelti. Auðvitað fagna ég því að hæstv. ráðherra sé að setja á stofn samráðshóp. Ég óttast mjög að 21 manns nefnd muni ekki skila úrræðum núna á haustdögum, einfaldlega vegna þess að við skipun svo stórs hóps þarf hann dálítið svigrúm sjálfur til að fara yfir það sem honum er ætlað.

Eins og fram kom í orðum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar áðan eru hér verkefni og ábendingar sem ekki geta beðið haustsins að mínu mati. Það þarf að bregðast við strax. Hvernig menn gera það í þröngri stöðu og m.a. út af breyttum forsendum í því hvernig við byggjum upp fjárlög o.s.frv. finnst mér í sjálfu sér ekki aðalatriðið hér. Mér finnst aðalatriðið vera að hæstv. ráðherra finni leiðir til þess að styrkja stofnanirnar strax að einhverju marki meðan unnið er að framtíðarlausnum á því hvernig þetta á að gerast. Ég segi aftur: Við getum ekki og stofnunin getur ekki og auðlindin getur ekki beðið haustsins eftir því að farið sé yfir þessi atriði.

Reyndar var annað í skýrslunni sem sló mig, atriði sem búið var að velkjast fyrir mér nokkuð lengi. Ég var sjálfur búinn að vera nokkuð lengi viss um að ekki væri allt eins og það ætti að vera, nefnilega varðandi eignarhaldið á aflaheimildum. Ég er alveg sannfærður um það, og ég bíð bara eftir því að vera gerður afturreka með það, að í hópi stærstu fyrirtækja á landinu eru fyrirtæki sem eru komin upp úr þakinu og hafa, með því að dreifa afla á önnur fyrirtæki sem þau eiga o.s.frv., komist hjá því að upp um þau komist, ef ég get orðað það þannig. Ég er alveg jafn sannfærður um að nokkur þessi stærstu fyrirtæki eru þegar komin upp úr þessu þaki.

Þess vegna fagna ég því mjög að lagt sé til að 13. og 14. gr. laga um fiskveiðar séu endurskoðaðar.

Það er reyndar eitt í viðbót sem ég gæti bætt við bara sem prívatskoðun, ég held að það komi mjög til álita að unnið verði að því að það þak sem nú er verði lækkað. Það er enginn vandi að lækka þakið á einhverju tímabili. Það er engin eignaupptaka af því að menn geta selt frá sér fiskveiðiheimildir. Málið er bara að hámarksaflaheimildaþakið lækki. Í staðinn fyrir að vera með þrjú, fjögur fyrirtæki sem bera ægishjálm yfir þessa atvinnugrein, eins og nú er … Ef við horfum bara kalt á þetta eru áhrifin sem þessir eignarhlutar hafa þau, þó að auðlindin sé í sjálfu sér í þjóðareign, að þeir gera t.d. lítið úr pólitísku valdi. Við, löggjafinn, erum bara eins og smákrakkar. Ef þeir sem ráða mestu um aflaheimildir ákveða sjálfir að bregðast einhvern veginn við aðstæðum eða breyta uppbyggingu fyrirtækja sinna o.s.frv. höfum við engin áhrif á það, ekki nokkur.

Ég tel að við þurfum að hafa það vald og eigum að hafa það þannig að ég segi aftur: Hér eru atriði sem þola ekki bið. Hér eru atriði sem taka þarf á strax. Það er að mínu mati ekki forsvaranlegt að við horfum á það í kannski hálft ár í viðbót að eftirliti með vigtun sé stórlega ábótavant, eins og þarna kemur fram. Það er ekki ásættanlegt að ekki sé hægt að fylgjast almennilega með brottkasti um borð, hvernig sem við viljum gera það. Það þarf að gera það.

Það snýr reyndar ekki bara að þeirri stofnun sem hér er undir, það snýr líka að Landhelgisgæslunni og við vitum öll að hún er fjársvelt. Eitt varðskipið okkar liggur í langtímalegu inni í Sundahöfn og það er ekki á leiðinni út á næstunni. Við böslum við að hafa eitt skip á sjó til að passa alla lögsöguna.

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið, það er mjög alvarlegt og það þarf að bregðast við því, eins og skýrslan segir, sem er gríðarlega vel unnin. Það er ástæða til að þakka Ríkisendurskoðun sérstaklega fyrir hvernig hún er unnin og hvernig hún er uppsett og hvað hún er skýr og glögg. Hún krefst þess eiginlega af okkur að við tökum mark á henni, að við tökum mark á þeim ábendingum sem í henni felast og sýnum það með einhverjum ákveðnum hætti nú þegar.

Auðvitað vona ég að sá vaski hópur sem ráðherra er að safna saman skili af sér núna í haust. En ég ítreka að á meðan á þeirri vinnu stendur verðum við að bregðast við fjársvelti þessara stofnana sem fyrst.

Ég segi aftur: Það er líka „lapsus“ á þinginu að þetta ástand í stofnuninni hafi farið fram hjá okkur öll þessi ár. Ég veit ekki, af því að ég sit ekki í fjárlaganefnd og hef ekki gert það, hvort þar hafi komið fram einhverjar vísbendingar um þetta á sínum tíma. Ég veit það ekki. Ég minnist þess ekki frá veru minni í atvinnuveganefnd á sínum tíma að þessi stofnun hafi komið sérstaklega boðum á framfæri þangað um að víða væri pottur brotinn í fjármögnun stofnunarinnar. En það skiptir ekki öllu máli, það þarf ekki að benda á einn eða neinn.

Það er bara með ólíkindum að þetta ástand skuli hafa verið viðvarandi öll þessi ár og að enginn hafi gert sér grein fyrir því. Við skuldum bæði stofnuninni og náttúrlega auðlindinni okkar og okkur sjálfum að bregðast við eins fljótt og vel og við getum og með því að taka síðan þær tillögur alvarlega sem vonandi líta dagsins ljós á haustdögum og bregðast við þeim jafn fljótt, umsvifalaust, því að það ástand sem teiknað er upp í þessari skýrslu er mikill áfellisdómur.