149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna. Í skýrslunni er að finna niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar sem unnin var að beiðni Alþingis frá því í mars 2018 en skýrslan barst í desember 2018. Markmið úttektarinnar var að kanna verklag og árangur Fiskistofu við eftirlit með vigtun afla, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda. Önnur verkefni Fiskistofu voru ekki þar undir. Jafnframt voru yfirstjórn og eftirlit atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með þessu hlutverki stofnunarinnar könnuð.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði um skýrsluna á fundum sínum og aflaði álits atvinnuveganefndar sem fylgir með áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þingskjali sem fyrir liggur. Ég skrifa undir álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er sammála því sem þar kemur fram, en það álit hefur formaður nefndarinnar rakið hér í framsöguræðu. Ég mun hins vegar staldra við nokkur atriði í umfjölluninni í skýrslunni og áliti nefndarinnar, en vil fyrst segja að skýrslan bendir á ýmis tækifæri til úrbóta, m.a. með skilvirkara samstarfi við hafnir, skýrari markmiðum og skýrari forgangsröðun í eftirlitinu og betri nýtingu tækninnar, ásamt því að fara þurfi yfir tiltekin lög og reglur sem gilda um fiskveiðar og eftirlit með þeim.

Eftirlit Fiskistofu er mikilvægur liður í framkvæmd stefnu stjórnvalda um sjálfbærar og ábyrgar veiðar. Það þarf því að vera traust og skilvirkt og gagnsætt og ekki síst þarf að ríkja traust milli eftirlitsaðila og þeirra sem sæta eftirlitinu.

Meginniðurstöður Ríkisendurskoðunar hafa verið raktar hér, en ríkisendurskoðandi setur fram 11 tillögur til úrbóta í fjórum flokkum. Eitthvað af þeim tillögum er farið að vinna með hjá Fiskistofu og fram hefur komið að atvinnuvegaráðuneytið hefur hafið vinnu við úrvinnslu úr öðrum.

Mig langar að ræða hér um nokkrar leiðir til úrbóta sem raktar eru í skýrslunni. Það er töluvert rætt um fjölgun starfsfólks við eftirlit. Ég tel rétt að skoða það ekki síður en notkun rafræns eftirlits. Fram kom að rafrænt eftirlit væri hagkvæm lausn og margra eftirlitsmanna maki. Í Danmörku hefur verið notast við rafrænt eftirlit með góðum árangri, en sjá mátti breytta aflasamsetningu eftir upptöku slíks. Einnig hefur verið bent á það að skoða hvort Fiskistofa fái aðgang að rafrænum upplýsingum um niðurstöður vigtunar í rauntíma og heimildir til að nýta fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum. Þá er hvatt til þess að Fiskistofa og Landhelgisgæslan starfi meira saman en nú er, en það hafa systurstofnanir Fiskistofu á Norðurlöndum gert með góðum árangri.

Ein af niðurstöðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Fiskistofa tryggi betur í sessi samstarf og samráð. Þetta tel ég mjög mikilvægt og legg áherslu á faglega forystu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við mótun umgjarðar um eftirlitið þó að þekking og framkvæmd þurfi að vera hjá Fiskistofu.

Í skýrslunni kemur fram að á tveimur stöðum í lögum sé mælt fyrir um skyldu ráðherra til að setja reglugerð. Annars vegar er það að kveða skuli á um skipulag og starfsemi Fiskistofu. Sú reglugerð hefur aldrei verið sett þó að ákvæðið hafi staðið nær óbreytt frá því að lögin voru sett 1992. Ég held að þar sé gott tækifæri fyrir núverandi hæstv. ráðherra að bæta úr. Löggjafinn hefur falið ráðherra að setja slíka reglugerð og verður vart hjá því komist.

Í athugasemdum við frumvarpið á sínum tíma, sem varð að lögum um Fiskistofu, segir:

„Ekki þykir rétt að binda skipulag eða deildaskiptingu Fiskistofu í lögum. Breytingar hljóta jafnan að verða á verkefnum stofnunar sem hefur svo vítt starfssvið. Er því eðlilegt að unnt sé að haga þessum málum eftir því sem hagfelldast þykir á hverjum tíma og kostnaðarminnst.“

Þannig virðist ljóst að ráðherra getur ekki framselt ákvörðunarvald um skipulag stofnunarinnar með öllu til fiskistofustjóra. Þá segir í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar að hafnir skuli uppfylla kröfur um aðstöðu til vigtunar sjávarafla og eftirlit sem kveðið er á um í reglugerð og getur ráðuneytið bannað löndun sjávarafla í einstökum höfnum sem ekki fullnægja kröfum reglugerðarinnar. Þessi reglugerð hefur ekki heldur verið sett. En fram kemur í skýrslunni um viðbrögð ráðuneytisins að það hyggist setja reglugerðina um vigtun á hafnarvog og þar eru tækifæri til að setja kröfur um búnað og verklag sem skilgreina þarf betur. Ráðuneytið hyggst kanna útfærslu krafna á vigtun í lögum og skyldur hafnaryfirvalda henni tengdar. Þá sé til skoðunar að gera rafrænt eftirlit og beintengingu vigtunar við gagnagrunn Fiskistofu að skilyrði fyrir leyfum til endurvigtunar.

Þessi atriði tel ég mjög mikilvæg. Tæknin býður upp á ýmis ný tækifæri, bæði þessi beinu rafrænu samskipti, beina tengingu voga, myndavélaeftirlit og eins mætti skoða víðar hvernig landupplýsingakerfi getur nýst við eftirlit o.fl. Þá þarf að huga að samræmi eftirlits við eftirlit í kringum okkur, m.a. við vigtun úr deilistofnum og þar sem erlend skip landa afla hér á landi. Eitt af því sem kemur fram í viðbrögðum Fiskistofu er að Fiskistofa mælir með því að færa vigtun á hafnarvog undir forræði stofnunarinnar. Þá hugmynd skil ég hins vegar ekki. Eftirlitsaðilinn getur varla haft forræði yfir verkefninu sem hann á að hafa eftirlit með. Ég álít hins vegar að með góðu samstarfi við hafnir landsins, skýrum kröfum til aðstöðu og framkvæmdar og góðum leiðbeiningum mætti bæta margt í umgjörð vigtunar á hafnarvog og með skilvirku samstarfi Fiskistofu og Hafnasambands Íslands, en það samstarf þarf að vera virkt á öllum tímum.

Í skýrslunni kemur fram að gott samstarf sé á milli ráðuneytisins og Fiskistofu um hvernig bæta megi eftirlitið. Ég fagna þeim viðbrögðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að setja á fót verkefnisstjórn til að fara yfir skýrsluna og þær ábendingar sem samstarf þarf um að hrinda í framkvæmd. Eins er mikilvægt að sá samráðsvettvangur sem hæstv. ráðherra fór yfir hér áðan verði sem virkastur þannig að hægt verði að vinna úr ábendingunum og koma úrbótum á sem fyrst. En í þeirri vinnu er, eins og fram hefur komið, lykilatriði að fara yfir verkaskiptingu, samvinnu og samstarf allra aðila, skoða ákvæði laga og eru þar efst á blaði 13. og 14. gr. laga um stjórn fiskveiða varðandi hámark aflahlutdeildar.

Sjávarútvegur er einn veigamesti og arðbærasti atvinnuvegur landsins og því er mikilvægt að eftirlit með nýtingu sjávarauðlindarinnar og umgengni við hana sé traust og í samræmi við lög á hverjum tíma. Það þarf að ríkja fullt traust á milli eftirlitsaðila og þeirra sem nýta auðlindina um sanngjarnt og skilvirkt eftirlit þannig að ljóst sé að allir sem nýta auðlindina sitji við sama borð. Þannig verður hagsmuna almennings best gætt og sjálfbærni í nýtingu auðlindarinnar tryggð.