149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í þessum ræðustól í gær voru ég og Öryrkjabandalagið sögð ráða yfir 1,4 milljörðum í ríkissjóði. Ég hef aldrei vitað að ég eða Öryrkjabandalagið hefðum aðgang að fjármunum ríkissjóðs. Hér er um að ræða krónu á móti krónu skerðingar og, með leyfi forseta, ætla ég að vitna orðrétt í það sem fjármálaráðherra sagði hér fyrr á þessu þingi:

„Tillögurnar eru ekki komnar fram. Það er mjög óraunsætt að ætla að þær taki gildi 1. janúar, en við getum haft vonir um að það verði eftir fyrsta ársfjórðung og frá og með þeim tíma eru 4 milljarðar á ári inn í framtíðina tryggðir í áætlunum okkar. Af þessu erum við stolt.“

Þarna var hann að tala um afnám krónu á móti krónu skerðingar.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar kostaði afnám krónu á móti krónu skerðingar ekki undir 11 milljörðum árið 2016. Þarna eru 4 milljarðar og þá er ekki verið að tala um nema 1/3 af því sem króna á móti krónu skerðingar eiga að kosta. Þar af leiðandi spyr ég ráðherrann: Var verið að plata öryrkja? Átti bara að leiðrétta 1/3 af krónu á móti krónu skerðingum?

Síðan vil ég fá svör varðandi það sem ráðherra sagði um búsetuskerðingarnar. Hann sagði orðrétt:

„… skiptir fjármögnun þess í sjálfu sér engu máli vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki.“

Hægt væri að leiðrétta búsetuskerðingar hjá yfir 200 manns á stundinni. En allt í einu þarf fjárheimildir til þess að gera það. Af hverju er það ekki gert, hvorki aftur á bak né áfram? Þetta er fólk sem á ekki rétt neins staðar annars staðar. Það á að leiðrétta og ykkur ber skylda til að leiðrétta það strax í dag, vegna þess að þetta fólk (Forseti hringir.) hefur ekkert brotið af sér, en ríkið hefur brotið á því. Það er búið að viðurkenna það.