149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við áttum orðastað fyrir áramót þegar ákveðið var við gerð fjárlaga að 4 milljarða framlagið á árinu 2019 yrði lækkað þar sem kerfisbreytingarnar væru ekki tilbúnar og við sögðum að allar líkur væru á því að við gætum innleitt nýtt kerfi 1. apríl. Því miður er staðan sú, og við lesum um það í blöðunum, varðandi þá lausn sem hefur verið í smíðum í mörg ár, allt frá því að Pétur H. Blöndal leiddi þá vinnu fyrir margt löngu sem er núna undir forystu nýs félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, og þess starfshóps sem hann hefur sett í málið, að unnið hefur verið sleitulaust að því að fá niðurstöðu en þeirri niðurstöðu er hafnað af Öryrkjabandalaginu. Í þeirri lausn sem er á borðinu er verið að afnema krónu á móti krónu skerðinguna en því er hafnað. Það er ekki hægt að einangra krónu á móti krónu skerðingu frá öðrum kerfisbreytingum. Ég vona innilega að 1. apríl renni ekki upp án þess að niðurstaða fáist í málið. En það er Öryrkjabandalagið sjálft sem hafnar lausnunum sem hafa verið í smíði í þetta langan tíma. Það er auðvitað erfitt að horfa upp á. En við höfum tryggt fjármögnun frá og með öðrum ársfjórðungi á þessu ári þannig að við erum með til reiðu 4 milljarða á hverju ári upp frá því.

Vonandi fæst farsæl niðurstaða í þetta mál. Það mun leiða til þess að þær skerðingar sem hv. þingmaður nefnir heyri sögunni til, alveg eins og átti við í ellilífeyriskerfinu, við afnámum krónu á móti krónu skerðinguna sem við köllum alltaf svo, en í reynd var þetta innleitt á sínum tíma sem sérstök framfærsluuppbót fyrir þá sem höfðu minnst. Það er það sem þetta var allan tímann, sérstök framfærsluuppbót fyrir þá sem höfðu minnst. Og nú ætlum við að gera sérstöku framfærsluuppbótina að grunnbótum í kerfinu með kerfisbreytingunni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég lýsi áhyggjum af því að (Forseti hringir.) þessar áralöngu viðræður, þetta samtal, skili ekki árangri, skili a.m.k. ekki sátt.