149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en því miður eru þau rýr. Þó kemur alla vega skýrt fram að það á að fjármagna krónu á móti krónu burt, en samkvæmt 4 milljörðum dugir það ekki til. Hvar er mismunurinn? Af hverju er ekki búið að leiðrétta búsetuskerðingar hjá því fólki sem fær engar tekjur erlendis frá eins og lofað hefur verið, og á að gera strax? Tortryggni öryrkja er algjör og þar af leiðandi er ekki furða þó að þeir neiti að skrifa undir. Mér er óskiljanlegt, miðað við stöðuna í dag og miðað við það sem búið er að ná fram í þessari nefnd, að ríkisstjórnin skuli ekki sjá til þess að gera það bara strax. Af hverju er alltaf verið að hóta fólki? Okkur er hótað starfsgetumati. Fólk er hrætt við þetta orð og það mun ekki gagnast vegna þess að það er alveg skýrt að hótanir gagnvart öryrkjum rýra vinnuna. Þeir fá ekki íbúðir. Þeir fá ekki neitt nema þeir kyngi starfsgetumati. (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt.