149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fæst af því sem hér var sagt stenst skoðun. Niðursveifla sem sveitarfélögin eru í — ég kannast bara ekki við niðursveifluna sem sveitarfélögin eru í. Þau er ekki í niðursveiflu, þau stefna ekki í niðursveiflu, þau hafa verið í gríðarlega mikilli uppsveiflu. Tekjurnar hafa verið að vaxa, skuldahlutföllin hafa verið að batna, þjónustustigið hefur hækkað. Það er bara gott útlit fram undan fyrir sveitarfélögin. Það eru engin efni til þess að fara í djúpa umræðu um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á grundvelli hugmynda sem viðraðar voru á fundi í fjármálaráðuneytinu um eitt tiltekið atriði.

Samtalið við sveitarfélögin hefur snúist um margt að undanförnu. Ég nefndi áðan að ríkið hefði afhent sveitarfélögunum, til að standa við framtíðarlífeyrisskuldbindingar, yfir 20 milljarða fyrir nokkrum árum án nokkurrar lagalegrar skuldbindingar til þess. Við erum sömuleiðis í viðræðum við sveitarfélögin um að setja í uppbyggingu samgöngumála á næstu árum tugi milljarða. Við höfum sett í stjórnarsáttmálann að við séum opin fyrir samtali um gistináttagjaldið og mögulega tilfærslu þess. Við fáum til okkar kröfur um að fjármagna með einhverjum hætti, t.d. skattívilnunum eða einhvers konar stuðningi, fráveitumál sem víða eru í ólestri og eru fjárfrekar framkvæmdir sem reynast smærri og fámennari sveitarfélögunum mjög þungbær.

Við erum í samtali við sveitarfélögin út af málefnum fatlaðra, út af NPA-aðstoðinni. Við erum í samtali við sveitarfélögin út af innviðafjárfestingarþörf sem tengist ferðaþjónustu. Ég gæti haldið áfram niður listann. Heilbrigðismálin kæmu þar snemma upp á yfirborðið eins og t.d. þjónustusamningar út af öldrunarþjónustu og annað þess háttar.

Að setja málið í það samhengi, þegar við erum í miðju samtali um að ráðstafa milljarðatugum á næstu árum til að styðja við markmið sveitarfélaganna, að það sé einhver vísbending um að ríkið ætli að gera sveitarfélögunum erfitt fyrir, (Forseti hringir.) þó að það sé nefnt á fundi að framlög í jöfnunarsjóð kynnu að standa í stað tímabundið í tvö ár, ef við metum það upp á 700 milljónir á næsta ári, finnst mér vera að gera úlfalda úr mýflugu.