149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

strandveiðar.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur í dag frumvarp frá atvinnuveganefnd um fyrirkomulag strandveiða þar sem gert er ráð fyrir að festa í sessi ákveðna tilraun sem gerð var á síðasta veiðitímabili. Þar voru gerðar nokkuð miklar breytingar á fyrirkomulagi strandveiðanna í tilraunaskyni. Það vekur athygli að síðan sé strax komið fram, með tiltölulega skömmum fyrirvara, að festa eigi þær breytingar í sessi til frambúðar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra út í aðkomu ráðuneytisins að þessari vinnu. Hefur farið fram á vegum ráðuneytisins einhver úttekt á áhrifum þeirra breytinga sem gerðar voru í fyrra? Telur ráðuneytið óhætt að fullyrða að þær breytingar séu að fullu komnar fram? Því að svo viðamiklar breytingar eins og þá voru gerðar kunna að hafa í för með sér töluverðar breytingar til lengri tíma litið, þ.e. að það kann að taka einhver ár fyrir áhrif þeirra breytinga að koma fram að fullu.

Það sem vekur sérstaka athygli mína er hvers vegna þetta mál er ekki unnið og undirbúið í ráðuneytinu. Verið er að ræða framtíðarfyrirkomulag á strandveiðum hér á landi, sem heyra undir hæstv. ráðherra. Þykir mér það því nokkuð athyglisvert að málið sé ekki unnið á vettvangi ráðuneytisins og hlýtur það að vekja upp spurningar: Nýtur málið ekki fulls stuðnings ráðherra í þeim breytingum sem hér er verið að boða?