149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

lengd þingfundar.

[11:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Rétt fyrir klukkan tíu sé ég tölvupóst þar sem forseti veltir því upp að hafa lengri þingfund í ljósi þess að einhverjir þingflokkar hafa óskað eftir lengra hádegishléi til að halda þingflokksfundi. Ég sendi forseta svar og spyr hvers vegna og hverjir hafi óskað eftir þessu. Þegar ég sest í þingsal um hálfellefu sé ég að forseti hefur svarað kl. 10.20 að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi óskað eftir því að geta hist.

Ég veit ekki hvort allir þingflokksformenn hafi séð þennan tölvupóst frá forseta. Vissulega er það rétt að forseti hefur oft minnt okkur á að hann stýrir þessari samkomu en forseta ber líka að hafa samráð við þingflokksformenn um dagskrá þingsins og ég tel að þetta sé ekki rétt aðferð til að hafa hér frið og ró og samstarf við þingflokksformenn — og tilkynna svo bara í þingsal að hann líti svo á að þingfundur geti staðið lengur.

Ég er ekki sammála forseta að um það sé samkomulag en að sjálfsögðu ræður forseti öllu því sem hér gerist.