149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[11:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ástæðan fyrir því að orðalagið er með þeim hætti sem hv. þingmaður vísar réttilega til, er ákveðinn ómöguleiki. Það kann að vera vandkvæðum bundið að nálgast það með þeim hætti vegna þess að það er ekki alltaf að frumkvæði einstaklingsins sjálfs heldur að frumkvæði stofnananna sjálfra sem leitast er við að uppfylla lagaskyldu og veita einstaklingnum þau réttindi sem þeir eiga rétt á.

Ég tel að full ástæða sé til að fara betur í saumana á því atriði sem hv. þingmaður nefnir í meðförum nefndarinnar, ekki síst að fá Sjúkratryggingar Íslands á fund nefndarinnar til að ræða þessar áhyggjur. Því að það skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé á haldið og gætt sé að öllum varúðarsjónarmiðum þegar um er að ræða svo viðkvæman þátt sem persónuupplýsingar, ekki síst á heilbrigðissviði. Því að það er auðvitað þar sem persónuupplýsingarnar eru viðkvæmastar. Eins og þeir þekkja til sem leitast hafa við að stiga viðkvæmni þeirra upplýsinga sem til eru um einstaklinga í kerfinu eru upplýsingar á heilbrigðissviði svo sannarlega þær viðkvæmustu sem um ræðir. Þess vegna þarf að halda sérstaklega vel utan um þær.

Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og vonast til þess að hv. velferðarnefnd skoði þennan þátt sérstaklega.