149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni þess efnis að heimilt verði að stofna og reka neyslurými að undangenginni heimild embættis landlæknis.

Neyslurými er skilgreint í frumvarpinu sem lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna óheimil á íslensku forráðasvæði. Með því að veita þá undanþágu sem lögð er til í þessu frumvarpi er lögfest heimild fyrir stofnun neyslurýmis þar sem heimilt er að neyta ávana- og fíkniefna undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og við aðstæður sem lágmarka þann skaða sem notkun getur haft í för með sér, svo sem sýkingar, ofskömmtun og aðra alvarlega fylgikvilla notkunarinnar.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð og jafnframt að draga úr neyslu ávana- og fíkniefna utan dyra, á almannafæri, og þar með annars vegar að draga úr ofskömmtun á ávana- og fíkniefnum og hins vegar að notaður sprautubúnaður finnist á víðavangi.

Neyslurými eru fyrst og fremst ætluð til skaðaminnkunar, til að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Skaðaminnkun gagnast ekki aðeins fólki sem notar slík efni heldur einnig fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið hafa bæði fjallað um skaðaminnkandi úrræði eins og neyslurými sem þau telja vera mikilvægan þátt í að draga úr ýmsum smitsjúkdómum og dauðsföllum vegna neyslu of stórra skammta. Ávinningi neyslurýma hefur í þessu samhengi verið skipt í þrennt, þ.e. persónulegan ávinning fyrir einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð og þeirra nánustu, samfélagslegan ávinning, sem best sést á umgengni á almenningsstöðum, og loks fjárhagslegan ávinning sem felst aðallega í styttri legutíma á sjúkrahúsum, snemmbúnum inngripum og lægri lyfjakostnaði vegna meðferðar við HIV-smiti og lifrarbólgu C.

Eins og kunnugt er hefur Frú Ragnheiður – skaðaminnkun, sem starfrækir sérútbúinn bíl á vegum Rauða krossins í Reykjavík séð einstaklingum sem neyta ávana- og vímuefna í æð fyrir hreinum sprautubúnaði og jafnvel nauðsynjavörum, en þörf er á frekari þjónustu fyrir einstaklingana eins og almennri heilbrigðisþjónustu og hreinlætisaðstöðu, og einnig er þörf fyrir stað þar sem þeir geta neytt efnanna við bestu mögulegu aðstæður.

Virðulegi forseti. Við samningu þessa frumvarps var sérstaklega litið til nágrannalandanna en um 90 neyslurými eru nú starfrækt víða um heim. Framkvæmdin í Danmörku og Noregi var sérstaklega skoðuð og eru fimm neyslurými í Danmörku nú og tvö starfrækt í Noregi. Þar og víðar hefur verið talið mikilvægt að þjónusta í neyslurými verði skilgreind sem lágþröskuldaþjónusta. Í því felst að allar hindranir séu fjarlægðar í þeim tilgangi að auðvelda einstaklingum að nýta sér þjónustuna. Þá er þjónustan sérstaklega sniðin að þörf jaðarsettra einstaklinga með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Hindranirnar sem vísað er til geta m.a. verið almennt viðhorf starfsmanna innan heilbrigðisþjónustunnar til einstaklinganna, skortur á trausti einstaklinganna í garð heilbrigðisþjónustu, opnunartími neyslurýmis, hönnun og skipulag rýmisins, staðsetning, biðtími, samgöngur og gjaldtaka.

Þá er nauðsynlegt að þar sé boðið upp á þjónustu sem sinnir grunnþörfum einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð, svo sem næringu, hreinlætisaðstöðu, hreinum sprautubúnaði og fatnaði. Einnig verði í boði samþætt heilbrigðisþjónusta, t.d. til að koma í veg fyrir sýkingar og veita sálrænan stuðning. Þar eru einnig undir tilvísanir í vímuefnameðferðir, sértæk heilbrigðisþjónusta, félagsleg ráðgjöf og ýmis önnur fræðsla.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi atriði verði nánar útfærð í reglugerð sem ráðherra setur um stofnun og rekstur neyslurýma.

Virðulegi forseti. Í umræddu frumvarpi er lagt til að heimilt verði, að undangengnu leyfi landlæknis, að stofna neyslurými þar sem einstaklingum er heimilt að neyta ávana- og fíkniefna sem annars eru óheimil samkvæmt lögum. Þannig verður að gera ráð fyrir að einstaklingar geti á leið sinni í neyslurými haft undir höndum þann skammt sem þeir hafa í hyggju að neyta. Það fer því eftir mati lögreglunnar hverju sinni hvort gripið sé til refsivörsluaðgerða gegn einstaklingi sem er með efni á sér á leið til neyslurýmis, ýmist með aðvörun, haldlagningu efna, sekt eða ákæru.

Í því skyni væri æskilegt að sveitarfélag gerði formlegt eða óformlegt samkomulag við lögregluna um hvernig standa eigi að löggæslu í grennd við neyslurými líkt og gert er í Danmörku og Noregi þar sem samkomulag er um refsilaus svæði í grennd við neyslurými.

Áætlað er að í neyslurými verði annars vegar aðstaða fyrir einstaklinga til að neyta efna í æð. Hins vegar er gert ráð fyrir annarri aðstöðu þar, þar sem hægt er að veita þeim heilbrigðisþjónustu. Í reglugerð sem sett verður um stofnun og rekstur neyslurýma verður kveðið á um að í hverju neyslurými verði ávallt tveir starfsmenn á vakt og að annar þeirra sé hjúkrunarfræðingur en hinn þurfi ekki nauðsynlega að vera heilbrigðisstarfsmaður.

Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að sá kafli laga um heilbrigðisstarfsmenn sem fjallar um réttindi og skyldur þeirra gildi um þá sem starfa í neyslurými. Aftur á móti er nauðsynlegt að tryggja refsileysi starfsmanna neyslurýma þar sem það getur komið upp að einstaklingur látið lífið við neyslu inni í rýminu, enda verður notendum gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir séu inni á eigin ábyrgð. Þá verður starfsmönnum sem vinna í neyslurýmum kennt að bregðast við þegar einstaklingur tekur of stóran skammt með því að nota Naloxon, sem er lyf sem dregur úr áhrifum ofskömmtunar.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er stigið mikilvægt skref til verndar lífi og heilsu einstaklinga sem lifa við alvarlegan fíknisjúkdóm sem er bæði lífshættulegur vegna neyslunnar en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar umræddir einstaklingar neyta efna í æð á óöruggan hátt við óöruggar aðstæður.

Síðastliðin ár hefur þörfin fyrir það úrræði sem hér er mælt fyrir að verði heimilað með lögum sýnt sig ótvírætt þegar litið er til eftirspurnar eftir þeirri þjónustu sem Frú Ragnheiður – skaðaminnkun hefur veitt. Á hverju ári sækja um 450 einstaklingar þá þjónustu sem þar er veitt og hefur aukning milli ára verið stigvaxandi frá því að Frú Ragnheiður hóf störf árið 2008. Aukningin milli áranna 2017 og 2018 var 7%. Einnig er ljóst að þörf er á frekari þjónustu við umrædda einstaklinga og er markmið þessa frumvarps að tryggja lagaskilyrði fyrir því að slík þjónusta geti verið veitt. Þá hef ég ákveðið nú þegar að veita 50 millj. kr. styrk til stofnunar og reksturs neyslurýmis á grundvelli þessara laga þar sem þörfin er talin brýnust.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.