149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og stuðninginn við málið. Eins og ég tók fram í mínu andsvari er alveg ljóst að við erum að stíga hér skref sem snýst ekki bara um þetta mál. Það snýst um svo ótal margar spurningar sem hrannast upp og mörg viðfangsefni sem gætu sannarlega verið næstu skref. Einmitt þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að þingið nái að ljúka afgreiðslu málsins núna þó svo að það skilji eftir nýjar spurningar. Ef við ætlum að ná algerlega utan um málið með heildstæðum hætti, með öllum þeim „hvað ef?“ spurningum sem vakna, getur það orðið til þess að fresta því að þessi löggjöf nái fram að ganga.

Ég deili vangaveltum hv. þingmanns varðandi réttaröryggi og skýrleika o.s.frv. Spurningin sem hv. þingmaður kemur hér með, um neysluskammta og refsileysi, er sannarlega næsta spurning. Það er umræða sem á að vera partur af umfjöllun velferðarnefndar um þetta mál. Þó að við séum þar líka í skilgreiningarvanda, eins og við höfum áður talað um í tengslum við önnur mál — hvað er það, hvað er neysluskammtur í hverju tilviki? — er það samt eitthvað sem við glímum við í nútímanum og við þær kringumstæður úti í samfélaginu þar sem 450 manns leita þjónustu Frú Ragnheiðar getur Alþingi ekki annað en spurt sig þessara spurninga. Við verðum að taka þær á dagskrá.

Ég fagna því ef hv. velferðarnefnd lítur svo á að það sé partur af umfjöllun nefndarinnar að ræða þessi álitamál jafnframt.