149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn þakka ég fyrirspurnirnar. Mig langar sérstaklega að grípa boltann þar sem hv. þingmaður nefnir málefni fanga. Við höfum verið að ræða heilmikið heilbrigðisþjónustu við fanga og þá höfum við kannski fyrst og fremst verið að tala um geðheilbrigðisþjónustu sem hefur ekki bara verið ófullnægjandi heldur hefur hún ekki verið nein um árabil á Íslandi. Það er þó allt í farvegi og vonandi er samningaviðræðum að ljúka hvað það varðar, við erum komin í höfn með almenna heilbrigðisþjónustu og við þurfum að klára það sem heitir geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga.

En þessi hópur sem hv. þingmaður nefnir krefst heildrænnar nálgunar, allt frá því að dómur gengur og þar til komið er að því tímabili sem er eftir afplánun. Þetta er samfelld vegferð í lífi fólks sem lendir þarna og kannski er skaðaminnkunarnálgunin sem hv. þingmaður nefnir, sem er kannski bara leið til að nálgast þann veruleika sem er sannarlega í fangelsum, partur af því að endurskoða hugmyndafræðina bak við fangelsisvistun á Íslandi. Ég átta mig á því að það tilheyrir málaflokki annars ráðherra en ég held að Íslendingar þurfi að stíga skref í áttina að því að horfa meira á betrun en refsinálgun og ég held að partur af því sé að nálgast einstaklinginn í því félagslega samhengi sem hann er en ekki sem einstakling sem á bara að þola refsingu í einhvern ákveðinn tíma og svo sé allt með kyrrum kjörum eftir það.

Við vitum það, sem vitum sífellt meira um geðheilbrigðismál o.s.frv., að lengi býr að fyrstu gerð. Við vitum að þetta snýst um ævina alla þannig við þurfum að nálgast þennan hóp sérstaklega með heildstæðum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)