149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:59]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er ástæða í dag til að gleðjast yfir því að þetta mikilvæga og góða mál sé nú komið til Alþingis og til þinglegrar meðferðar. Eins og ráðherra fjallaði um mun samþykkt þessa frumvarps heimila stofnun og rekstur neyslurýma, sem er lagalega verndað umhverfi, þar sem einstaklingar yfir 18 ára aldri geta neytt vímuefna í æð á öruggan hátt undir eftirliti og þar sem gætt er hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins um málið á það rætur sínar að rekja til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu sem lögð var fram á sínum tíma af Birgittu Jónsdóttur og þingflokki Pírata, ásamt fulltrúum úr öllum flokkum á 143. löggjafarþingi.

Tillagan var samþykkt 16. maí 2014 og send ríkisstjórninni. Þingsályktunin fól ríkisstjórninni það hlutverk að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að skipa starfshóp í því skyni að vinna að mótun stefnunnar.

Verkefni starfshópsins var þríþætt: Í fyrsta lagi að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka mætti viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf. Í öðru lagi að líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu.

Og í þriðja lagi að skapa heildstæða stefnu sem legði höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda sem dragi úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu með því að stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.

Greinargerð þingsályktunartillögunnar hófst á tilvitnun í Kofi Annan, sem mig langar að endurtaka, með leyfi forseta:

„Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“

Forseti. Samþykkt þessarar þingsályktunartillögu markaði ákveðin þáttaskil í stefnumótun stjórnvalda gagnvart því samfélagslega vandamáli sem felst í misnotkun vímuefna. Allt frá því að stjórnvöld byrjuðu fyrst að taka eftir því að hér á landi kynni neysla vímuefna að vera nokkuð útbreidd, hefur stefnumótun byggt á því að refsa fólki fyrir alla meðferð efnanna, hvort sem þau eru til eigin neyslu eða til sölu eða dreifingar. Það sést líka í því að lög um ávana- og fíkniefni hafa aldrei farið í heildarendurskoðun. Í grunninn erum við að miklu leyti enn þá að starfrækja sömu stefnu og hér var sett á fót árið 1974.

Í kjölfar síendurtekinna misheppnaðra herferða lögreglu og stjórnvalda gegn vímuefnaneytendum er almenningsálit hér á landi loksins að breytast. Fólk er að komast á þá skoðun að kannski sé réttara að hjálpa fólki í vanda frekar en að ofsækja og refsa því. Það er í þessu andrúmslofti sem þingsályktunartillaga þingflokks Pírata og allra annarra flokka á þingi var lögð fram og síðast samþykkt samhljóða með stuðningi allra flokka. Þess vegna er samþykkt hennar svo mikilvæg. Hún markar byrjun á mikilvægri og víðtækri stefnubreytingu stjórnvalda, sem ég vona einlæglega mun halda áfram eftir þetta mikilvæg skref heilbrigðisráðherra.

Í kjölfar þess að tillagan var samþykkt á Alþingi var skipaður starfshópur í samræmi við fyrirmæli hennar. Hann lauk störfum árið 2016 og færði heilbrigðisráðherra skýrslu sína, sem kynnti hana fyrir Alþingi.

Í niðurstöðum hópsins voru 12 tillögur um aðgerðir sem grípa skyldi til. Mér finnst mikilvægt að reifa þær til þess að minna okkur á það verk sem á eftir að vinna.

Fyrsta tillagan var afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum. Því er ekki búið að breyta í lögum. Því miður virðist eins og vinnu við það sé hætt. Það er óljóst hvar það mál stendur en augljóslega er það hjá dómsmálaráðherra en það hlýtur að vera verkefni sem unnið er í samráði við heilbrigðisráðherra. Það væri fróðlegt að heyra frá heilbrigðisráðherra hvar sú vinna er stödd, hvort hún þekki það.

Önnur tillagan fjallar um að smávægileg fíkniefnalagabrot fari ekki á sakaskrá. Því er ekki lokið. Einungis er í gildi mæling á blóði varðandi vímuefnaakstur. Það er víst komið inn í nýja umferðarlagafrumvarpið, sem er til mikilla bóta og ber að fagna.

Fjórða tillagan: Fráhvarf, meðferð á sjúkrahúsi og fjölbreyttari úrræði. Því er ekki lokið, að mér skilst. Aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptaþjónusta. Frú Ragnheiður sinnir þeim málum eins og stendur. Lágmarksreglur um meðferð, því máli virðist ekki vera lokið. Skimanir fyrir HIV og lifrarbólgu C hjá einstaklingum í vímuefnavanda. Ég veit ekki hvar það mál er statt eins og staðan er núna, hvað varðar neyslurými, sem er þetta frumvarp. Það var áttunda tillagan.

Níunda tillagan er gjaldfrjáls heilsugæsla fyrir jaðarsettra hópa. Mér skilst að því sé ekki lokið. Samráðsvettvangur vegna vímuefnamála — því er ekki lokið. Fangar í vímuefnaneyslu njóti sömu réttinda, er ekki heldur lokið. Tólfta tillagan er um eflingu rannsókna og forvarnastarfs. Ég veit ekki alveg hvar það verkefni stendur.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, eftir að þessar tillögur komu fram höfum við aðeins komið nokkrum af þessum tillögum til framkvæmda. Ég hef haft af því áhyggjur að vilji stjórnvalda til að fylgja þessari þingsályktun hafi minnkað. Að þegar að því komi raunverulega að víkja af braut refsistefnunnar og fara af fullum þunga í afglæpavæðingu og skaðaminnkun sé vilji stjórnvalda kannski minni en áður virtist. Þess vegna gleður það mig að þetta frumvarp sé hér að komast til 1. umr. Ég vona svo innilega að við getum tryggt því góða og skjóta meðferð í þinginu.

Ég veit að ég mun tryggja málinu góða og skjóta meðferð, alla vega í velferðarnefnd, svo mikið er víst. Ég vil hvetja ráðherra og ríkisstjórnina alla til frekari dáða í því að feta áfram braut skaðaminnkunar og afglæpavæðingar. Ef markmiðið er að byggja upp samfélag sem byggist á samkennd og umhyggju fyrir náunganum er nauðsynlegt að halda áfram á þessari braut, og ekki bara vegna samkenndar og umhyggju fyrir náunganum heldur líka af því að þetta er rökrétta leiðin fyrir samfélagið allt.

Hæstv. ráðherra talaði um það áðan að hún væri glöð yfir því að það væri hlutverk velferðarnefndar að ræða þetta þingmál í hinu stóra samhengi. Stóra samhengið er auðvitað afglæpavæðing neysluskammta vímuefna. Ég tek undir þau orð. Það er svo sannarlega mikilvægt að ræða það í hinu stóra samhengi. Ég er sammála því að þó að við séum ekki búin að svara öllum álitaefnum og það sé ekki alveg komið á hreint hvert við stefnum í þessum málum megi það ekki stoppa framfarir og að góð mál fái að fara í gegn þótt það veki upp fleiri spurningar. Við þurfum þá bara að svara þeim spurningum og ganga í hin verkefnin sem allra fyrst.