149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka afar góða umræðu hér og sérstaklega jákvæðar undirtektir við þessu þingmáli. Það gleður mig sérstaklega að fá svo jákvæð viðbrögð við frumvarpinu.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem komið hafa fram í umræðunni. Mér finnst rétt að halda því til haga að það er löng leið sem við erum búin að feta þangað sem við erum komin í dag. Það er rétt og sanngjarnt að halda því til haga að aðdragandinn að þeirri skýrslu sem heilbrigðisráðherra lagði svo fram hér á þinginu 2015/2016, var auðvitað að frumkvæði Pírata, að koma þessari umræðu hér inn í þingsal. Það ber að þakka.

Það vill svo til að sú umræða er algerlega samstiga og samhliða þeirri umræðu sem er orðin ofan á hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og fleiri aðilum sem eru í alþjóðlegri stefnumótun í heilbrigðismálum, að við verðum að stíga skref í anda skaðaminnkunar ef við ætlum að koma til móts við þann heilbrigðisskaða og þá heilbrigðisógn sem stafar af ofneyslu ávana- og fíkniefna. Það gerum við ekki bara með því að freista þess að hindra neyslu efnanna. Það hefur verið reynt, en það er ekki leiðin, það er klárt.

Hins vegar höldum við áfram að bjóða upp á meðferðir. Við höldum áfram að missa ekki sjónar á mikilvægi forvarna. Og við höldum áfram að missa ekki sjónar á því að líf einnar manneskju er samtvinnað lífi svo margra annarra, lífi samfélagsins alls og álagi og umræðu sem samfélagið allt sveiflast í. Og við vitum að þegar einstaklingur hefur orðið fyrir þeirri ógæfu að verða af einhverjum ástæðum jaðarsettur þá er erfiðara að komast aftur á beinu brautina.

Þannig að það út af fyrir sig að stjórnvöld taki ákvörðun um að fresta því í lengstu lög og allra helst að hafna jaðarsetningu fólks, eykur möguleikana á því að allir séu þátttakendur í samfélaginu. Það er markmið út af fyrir sig. Það er markmið sem lýtur ekki bara að skaðaminnkun heldur sýninni á samfélagið í heild. Þá sýn vil ég halda í heiðri sem heilbrigðisráðherra og sem stjórnmálamaður á þessum tímum, sem eru að mörgu leyti mjög merkilegir tímar í Íslandssögunni, þ.e. þegar við erum að reyna að stilla aftur sjónglerið og ná fókus eftir efnahagshrunið.