149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:08]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsögu um frumvarp atvinnuveganefndar til breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem sagt breytingar á strandveiðum.

Fyrir ári síðan fór hv. þingmaður vel yfir hvernig ætti að meta árangurinn af þeirri tilraun sem gerð var á síðasta ári. Ég vil því spyrja: Hvar finn ég þá skýrslu, matið um hvernig til tókst? Það er fyrsta spurningin.

Ég set ákveðinn fyrirvara við það að við séum að festa þetta fyrirkomulag í sessi með þessum hætti til frambúðar. Ég sé hins vegar líka ákveðna kosti í því. 12 dagar til veiða í mánuði er kostur. Það skiptir máli að það sé meiri fyrirsjáanleiki en við höfum haft, alla vega síðasta árið, og ég tek undir að það er brýnt að málið verði afgreitt sem fyrst, þ.e. hvernig fyrirkomulag strandveiða í ár verður. Það má nú ekki mikið seinna vera. En það eru ýmsar ytri aðstæður sem geta haft áhrif á strandveiðar. Til dæmis getur samdráttur í heildaraflaheimildum haft áhrif á hvert hámarkið á aflaheimildum til veiðanna er. Breytingar á vinnumarkaði geta haft áhrif á ásóknina í veiðarnar, veðurfar, fiskverð, fiskigengd og fleira mætti telja.

Þess vegna vil ég aðeins fara til baka í það sem ég sagði einmitt fyrir ári síðan, að það liggur fyrir að þær viðbótaraflaheimildir sem komu inn í kerfið í fyrra og væntanlega líka í ár, fari allar inn á svæði A. Það sýndi sig að þær gerðu það. Niðurstaðan varð sú. Þess vegna vil ég spyrja: Ef ytri aðstæður breyta síðan kerfinu, þurfum við þá ekki að huga að einhverjum girðingum,(Forseti hringir.) mörkum milli svæða?