149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:15]
Horfa

Frsm.  (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég byrji á síðustu spurningunni: Ég tel að sú breyting að heimildin sé hjá Fiskistofu en ekki ráðherra breyti litlu um málið í heild. Við vitum að ráðherra hefur alltaf heimild, ef svo ólíklega vildi til að það væri farið upp í þak á 11.000 tonnum, til að gefa út reglugerð ef ónýttar heimildir eru í 5,3%, félagslega hlutanum. Undanfarið hafa aflaheimildir í línuívilnun ekki nýst. Ráðherra gaf út í ágúst 2017 reglugerð um 500 tonn til viðbótar og ég tel að ráðherra hverju sinni hafi þessa heimild með það að leiðarljósi að horfa til ónýttra heimilda í félagslega hlutanum sem, nota bene, geta ekki nýst, falla niður dauðar nema hægt sé að nýta þær til strandveiða. Þeir sem hafa verið á strandveiðum hafa auðvitað horft til þess vonaraugum að fá meira í sinn hlut þegar ljóst er að það falla niður dauðar heimildir eins og línuívilnun á milli fiskveiðiára.

Ég tel að það sé líka mikil búbót að fá auknar heimildir í ufsa, sem eru þá utan hámarksafla á hverjum degi. Það skiptir miklu máli. Þær fara upp í 1.000 tonn úr 700. Ég tel að það sé ekki þörf á því á þessu stigi að fara að setja einhverjar girðingar eða eyrnamerkja hlutfall. Ég tel þetta vera það mikið magn sem þarna er undir að það eigi að vera meira en ríflegt til að öll svæði fái 12 daga.

En svo vitum við auðvitað að það er mismunandi (Forseti hringir.) mikil hefð fyrir því og mismunandi mikil sókn í að róa á strandveiðibátum hvar sem er á landinu. Vissulega er í A-hólfi meiri hefð og lengri hefð fyrir því, (Forseti hringir.) alveg eins og á austurhluta landsins er löng og mikil hefð fyrir því að vera á uppsjávarveiðum, sem segir sig auðvitað sjálft því þar um slóðir er stutt á miðin að sækja.