149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir að flytja okkur þessar fregnir og frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem lúta að strandveiðum.

Þetta er að færast í varanlegri búning. Við í mínum flokki fögnum auðvitað þessari endanlegu breytingu og öllum þeim skrefum sem stigin eru út úr núverandi kerfi. Þetta er lítið lóð en ég veit að það er dýrmætt sjávarbyggðunum sem eiga aldagamla hefð, atvinnuhefð, á þessu sviði, þ.e. sjávarútvegi, en hafa farið mjög halloka í núverandi kerfi.

Hér segir í greinargerð að aflaheimildum verði ekki lengur skipt á landsvæði eða tímabil heldur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hafi verið það heildarmagn sem ráðstafað sé til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Mig langar að spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hvort þetta hafi fengið umfjöllun í nefndinni og hvaða áhrif hún telji að það muni hafa á strandveiðarnar.