149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vonast til þess að þetta hafi þau áhrif að það sé fyrirsjáanleiki, að komin sé ákveðin festa og að menn telji að þetta geti staðið þokkalega undir rekstri þessarar veiðileiðar þótt veiðitíminn sé ekki nema fjórir mánuðir. Margir af þessum bátum eru kannski með litlar aflaheimildir og reyna að róa á þær hinn hluta ársins.

Ég tel að þetta muni styrkja menn í trúnni að fara á strandveiðar. Ég veit að margir bátaeigendur völdu það t.d. í fyrra að fara frekar í viðskipti við einhver fyrirtæki og leigja af fyrirtækjunum aflaheimildir og leggja á móti. En ég tel að þetta skapi festu. Menn hafa þá þennan fyrirsjáanleika. Lögin eru komin til að vera þó að löggjafinn geti auðvitað endurskoðað ýmsa þætti í þessum lögum í framhaldinu eins og öllum öðrum.

Varðandi hugmyndir eins og að taka sunnudagana inn í þá hefur það vissulega verið rætt. Það voru deildar meiningar um það mál þegar við ræddum það í fyrra. Ég tel alveg eðlilegt að við ræðum það áfram og skoðum það. Menn höfðu einhverjar skoðanir á því hvort það hentaði að kalla út mannskap til að taka á móti þessum bátum á sunnudögum og hvort það hentaði vinnslunni. Þar voru uppi ýmis sjónarmið.

Varðandi öll mál sem ekki náðist að taka alveg utan um á síðasta ári þá töldum við í nefndinni að ekki væri rétt að fara að henda upp einhverjum boltum í loftið núna. Það væri mikilvægara fyrir strandveiðarnar og til að ná þessum málum í varanleg lög að fara fram með frumvarpið að mestu leyti óbreytt og bæta í pottana (Forseti hringir.) og skoða svo framhaldið miðað við reynsluna, en ekki fara að rugga bátnum og taka áhættu á því að missa samstöðuna.