149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:26]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, strandveiðar. Ég ætla að þakka hv. formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir hennar framsögu í þessu máli og yfirferð. Við erum öll á þessu máli í atvinnuveganefnd.

Það sem ég vildi segja í þessu sambandi er að ég hefði viljað, eins og við töluðum um í fyrra þegar þetta frumvarp fór í gegn til eins árs sem tilraunaverkefni, töluðum um það í ræðum hvað eftir annað, að við myndum taka það til endurskoðunar í vetur og slípa af því einhverja agnúa, bæta við og þar fram eftir götunum. Hef ég saknað þess að breytingin hafi ekki komið inn fyrr og spurt um það og fengið lítil svör. Nú er þetta komið og það eru ekki nema rúmir 40 dagar þangað til að strandveiðitímabilið hefst. Ef við ætlum ekki að missa þetta þannig að þetta fari inn í gamla kerfið sem var áður, þá þurfum við að hraða þessu í gegn og ég er alveg sammála því. En að því sögðu þá finn ég að því að við höfum ekki fengið frumvarpið fyrr inn til að vinna í því til lagfæringar. Fyrirkomulagið kom ágætlega út síðasta sumar og ég hef nefnt það við formann og fleiri að við ættum þá eftir sumarvertíðina, strandveiðivertíðin, að fá þetta til vinnslu og skoðunar. Þá getum við séð tvö ár aftur í tímann og kannski unnið það betur og skoðað það sem gæti komið upp á í sumar sem kom ekki upp á síðasta sumar, tækjum þetta til endurskoðunar næsta haust. Ég vonast eftir því að það verði hægt.

Það er ýmislegt sem menn hafa rætt í því sambandi og auðvitað vilja menn alltaf fá lagfæringar á ýmsu. Ég er í ágætu sambandi við trillukarla vítt og breitt. Við vitum það sem höfum verið í þessum bransa og þeir sem hafa fjallað um málið að það er misjöfn aðstaða á fiskiríi hringinn í kringum landið. Það veiðist oft best á norðvesturhorninu fyrri part sumars, á vorin. Á suðvesturhorninu í kringum Reykjanes og á Faxaflóa byrjar veiðin jafnvel í mars og er góð í apríl. Menn hafa kallað eftir því að það væri skoðað að opna fyrir veiðar í apríl. Síðan ef við förum hringinn austur fyrir, Norðurland, Austurland og Suðausturland, þá er oft ágætisveiði síðsumars. Þar hafa menn nefnt að lengja tímabilið jafnvel fram í september. Það er svolítið misjöfn aðstaða hringinn í kringum landið. Mér finnst alveg þess virði að athuga hvort ekki sé hægt að nálgast það í fyllingu tímans. Við náum þeirri umræðu ekki núna, tíminn er of knappur. Þetta eru helstu þættirnir sem kæmu til endurskoðunar.

Potturinn, sem við köllum svo, var í fyrra 10.200 tonn, kláraðist ekki. Það voru rúm 9.000 tonn sem veiddust og 700 tonn eftir af honum. Nú er hann 11.000 tonn og u.þ.b. 1.000 tonn sem út af standa í sambandi við línuívilnun og jafnvel eitthvað annað í 5,3% bixinu, eins og maður segir á vondu máli. Ég óttast ekki að þetta dugi ekki. Ég tel þetta muni duga í sumar. Eins og kom fram í ræðu formanns nefndarinnar þá hefur orðið fækkun á bátum síðustu ár, sjálfsagt af ýmsum ástæðum, lágt fiskverð og alls konar ástæður. Flestir voru bátarnir 2012 og hefur farið fækkandi síðan. Ég hef haft þá tilfinningu og skoðun að þetta kerfi sé komið til að vera. Það er búið að sanna sig þótt ég hafi ekki verið sérstaklega hrifinn af því þegar það kom á. Þetta er prýðiskerfi til hliðar við kvótakerfið, þó að það sé í raun og veru inni í kvótakerfinu, potturinn er tekinn út úr sameiginlegri auðlind.

Af því að ég nefni að það hefur orðið fækkun þá held ég líka að það séu spámenn farnir úr greininni, meira bara „orginalar“ eftir. Það eru kannski ungir menn sem vilja fara í útgerð og eru með blóð á tönnunum, eins og maður segir stundum. Síðan eru kennarar, lögfræðingar, listamenn og ýmsir aðrir sem eru þarna líka yfir sumarið og svo eldri karlar, gamlir sjómenn sem eru að sigla inn í sólarlagið. Þetta hentar ansi mörgum aðilum og er bara hið besta mál. Eins og kom fram áðan þá er þetta góður skóli fyrir nýliða. Við þurfum á því að halda að ungir menn geti fundið sig í sjómennsku og fundið fyrir sjálfstæði og áhuga og öðru slíku, það hefur verið þannig í gegnum áratugina og árhundruðin jafnvel, og menn þurfa að byrja einhvers staðar.

Ég ætla líka að nefna ufsann. Það var ágætisviðbót að ufsinn kom inn í sem svona aukategund. Ég er á þeirri skoðun eins og staðan er í dag og hefur verið undanfarin ár að ufsi sé mjög vannýtt tegund í fiskveiðiauðlind okkar. Honum er ekki mikið landað. Það er alltaf töluverður slatti af ufsa sem dettur upp fyrir við hver kvótaáramót. Það mætti skoða það betur að nýta hann með einhverjum ráðum og það kæmi ekki við nokkurn einasta aðila. Þá þarf sú fisktegund að vera þannig að það sé eitthvað upp úr henni að hafa, eitthvert verð, og veiðigjaldið og slíkt sé þannig að menn sjái sér hag í því að landa ufsanum.

Þetta er sú vinna sem ég hefði viljað fara í í vetur. En við höfum knappan tíma núna og ég mæli með því að frumvarpið fái að fara í gegn. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið meira. Þetta mál er nánast eins og það var, með smábreytingum þó. Nú fer það til nefndar aftur og til umsagnar. Það voru kallaðir inn umsagnaraðilar en það verður ekki mikið hægt vinna úr því nema bara til umhugsunar og kannski til framtíðar því tíminn er knappur. Góðir hlutir gerast hægt, eigum við ekki bara að segja það? Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.