149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar í lok þessarar umræðu að þakka fyrir góðar og innihaldsríkar umræður. Það hefur verið komið víða við, bæði af nefndarmönnum atvinnuveganefndar, sem eru vissulega flutningsmenn þessa frumvarps, við erum það öll, og öðrum þeim sem hafa lagt orð í belg í þessu máli. Allt kemur það til með að nýtast í störfum nefndarinnar og líka til að horfa til framtíðar eins og komið hefur fram.

Ég er ein af þeim sem hafa gengið með kröfuspjöld þar sem hefur staðið: Frjálsar handfæraveiðar! Hjarta mitt slær í þá áttina. Ég vildi svo gjarnan að í framtíðinni væri hægt að stilla kerfinu þannig upp að hægt væri að hafa frjálsar handfæraveiðar en ég veit að hinn pólitíski veruleiki er ekki alveg þar í augnablikinu. Ég er því mjög ánægð með að okkur hafi tekist að koma hlutunum í þann farveg sem hann er núna.

Ég hef líka hugsað til Noregs, hvað þeir eru að gera. Við leituðum fanga í Noregi varðandi fiskeldið og mættum líta til Noregs í þessum efnum líka. Ég er hjartanlega sammála því. Við skulum glíma við þetta viðfangsefni en hafa í huga að við getum alltaf gert betur í þessum málum sem öðrum.

Ég þakka fyrir þessa umræðu og undirstrika að við vinnum þetta áfram vel saman í nefndinni og klárum þetta tímanlega svo að strandveiðiflotinn geti farið af stað. Ég vona að fleiri bætist við og að vel fiskist í sumar, að gæftir verði góðar.