149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

ferðaþjónustan og hækkun lægstu launa.

[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Nú stendur ferðaþjónustan frammi fyrir miklum skelli ef flugfélagið WOW fer á hausinn og/eða í kjölfarið að ríkisstjórnin taki ekki þannig á málum að sá skellur hafi ekki alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland. Ráðherra hefur fengið tvær fyrirspurnir og svarað þeim að einhverju leyti. Mig langar að færa þessa umræðu aðeins inn á það hvaða áhrif þetta hefur á ferðaþjónustuna. Þeim mun alvarlegri sem svona skellur verður, þeim mun minna svigrúm verður fyrir ferðaþjónustuna að hækka lægstu laun. Krafan sem er í gangi hjá verkalýðshreyfingunni á Íslandi er einmitt að hækka lægstu laun. Þetta er einhvers konar botn, 10% aðallega, en færi síðan eitthvað upp stigann. Mikilvægt er þá að horfa til þess, og ég hef rætt þetta áður við hæstv. fjármálaráðherra, að fjármálapressan á Vesturlöndum er að tala um, ekki bara í dag heldur inn í framtíðina, að nauðsynlegt sé að lækka skatta á hina tekjulægstu og jafnvel koma með neikvæðan tekjuskatt þar sem persónuafslátturinn er borgaður út ef fólk uppfyllir ekki ákveðið mark. Tillögur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur komið inn á varðandi skattalækkanir fara upp allan stigann. Þeir sem eru með hæstu launin fá næstum sömu krónutölu og þeir sem eru nálægt því að vera með lægstu launin og sá sem nær lítið upp fyrir persónuafsláttinn fær minna en þau sem eru með hæst.

Þetta er ekki það sem fjármálapressan er að kalla eftir, að hægri sinnaðir stjórnmálamenn á Vesturlöndum bregðist þannig við. Svigrúmið minnkar mögulega núna, það sem ferðaþjónustan getur gert til að hækka lægstu laun. Fjármálaráðherra hefur svigrúm í skattinum. Það stendur á fjármálaráðherra að lækka skatta á lægstu laun. Hvað segir fjármálaráðherra við því og þá bara á lægstu launin en ekki að láta það ganga upp stigann? Er það ekki svigrúm sem fjármálaráðherra hefur, eru völdin ekki þar?