149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[15:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa sér tíma í þessa mikilvægu umræðu. Staða erlends starfsfólks hér á landi hefur verið mjög til umræðu á þessu uppgangsskeiði og af ærinni ástæðu. Við höfum heyrt allt of margar sögur þar sem verið er að brjóta mjög gróflega á réttindum starfsfólks, sem býr við algjörlega óviðunandi aðstæður og er í aðstöðu gagnvart vinnuveitanda sínum sem er á engan hátt ásættanleg.

Að því sögðu segi ég um leið: Það er afskaplega mikilvægt að við höldum þessari umræðu við það sem ég myndi kalla hina skipulögðu glæpastarfsemi á þessu sviði, sem nær aðeins yfir örlítinn hluta vinnumarkaðarins. Mér finnst of oft sem þessi umræða sé tekin þannig að hér sé upp til hópa stór hluti íslenskra fyrirtækja að brjóta á starfsfólki sínu, sem ég held að eigi alls ekki við í þessu tilfelli og þykist raunar hafa nokkuð fyrir mér í því. Þetta eru fáar en mjög alvarlegar undantekningar. Og vandinn þegar verið er að glíma við slíkt er að oftar en ekki erum við að glíma við hóp einstaklinga sem eru í hreinni og klárri skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem ásetningurinn frá upphafi er að brjóta á kjarasamningsbundnum réttindum, þar sem ásetningurinn er frá upphafi að hagnýta sér veika stöðu þess starfsfólks sem í hlut á. Því að það er jú það sem einkennir stöðu þessa hóps eðli máls samkvæmt. Hér er fólk sem er nýkomið til landsins, þekkir afskaplega lítið til réttinda sinna á vinnumarkaði og þekkir ekkert til kjarasamningsumhverfis o.s.frv. Hvernig getum við beint aðgerðum okkar að því að hjálpa þessum hópi að koma í veg fyrir þessi ásetningsbrot á vinnumarkaði?

Núna í janúar kom út skýrsla á vegum vinnuhóps hjá hæstv. ráðherra sem nefnir ýmis atriði sem nauðsynlegt sé að skoða, t.d. útvíkkun keðjuábyrgðar, baráttu gegn kennitöluflakki og svo mætti áfram telja. Auðvitað er þáttur þar sem ég hefði viljað sjá víðfeðmari umfjöllun um, sem er sá grunnur sem hlýtur óhjákvæmilega að liggja hjá okkur öllum hér, að á bak við mörg af þessum alvarlegustu brotum séu hrein og klár mansalsmál. Mansalsmál eru ekki þannig að fólk sé hlekkjað við veggi. Hér hagnýta menn sér með grófum hætti vanþekkingu og veika stöðu fólks á vinnumarkaðnum eða hér á landi og þar sem slík brot eiga sér stað, þar sem einstaklingar eru með óeðlilegum hætti upp á vinnuveitanda sinn komnir, t.d. varðandi húsnæði, varðandi atvinnuleyfi o.s.frv.

Það vekur athygli í þessari umræðu allri að þrátt fyrir að við sjáum að umhverfið er annað varðandi tíðni mansalsmála t.d. í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum, hefur ekki enn þá fallið dómur, svo best ég þekki, um mansal hér á landi. Þeir þröskuldar sem reistir eru í núverandi lagaramma virðast vera of háir til að hægt sé að færa sönnur á slíkt. En persónulega er ég ekki í nokkrum vafa um að einhver af þessum alvarlegustu málum geti ekki talist neitt annað hreint og klárt mansal.

Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við horfum til lagaumhverfis, ekki síst hvað þessi alvarlegustu mál varðar, mansalsmálin og þessi grófustu brot, ásetningsbrot varðandi refsiheimildir, og hvernig við stöndum að rannsókn þeirra. Skipulögð glæpastarfsemi er oftast með einföldustum hætti upprætt með því að elta peningaslóðina; hver hagnast, hversu mikið og hvernig var að málum staðið.

Vandinn er hins vegar um leið sá að við getum ekki gengið endalaust fram í því að þrengja regluumhverfið gagnvart þeim fyrirtækjum sem hér eru. Ég undirstrika að þorri þeirra fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði ætlar sér og leggur metnað sinn í að vinna eftir lögum og reglum og búa vel að starfsfólki sínu.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst hann beita sér í þessu máli? Er eftirlitinu nægilega vel sinnt? Hefur það það (Forseti hringir.) fjármagn sem til þarf? Hvernig ráðum við bót á þessu böli?