149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

umbætur á leigubílamarkaði.

617. mál
[16:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir að það er mikilvægt að það komi fram löggjöf um leigubílaakstur. Það er algerlega nauðsynlegt að við opnum á þennan akstur meira í frelsisátt og horfum á það sem er að gerast í borgum í kringum okkur þar sem aukin samkeppni hefur leitt af sér lægra verð og bætta þjónustu fyrir neytendur. Ég vil svo sannarlega að við fylgjum í þeim efnum á sama tíma og við þurfum auðvitað að tryggja öryggi farþega. Það held ég að geti farið ágætlega saman.

Mig langar líka að ítreka það sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, að leigubílar eru auðvitað hluti af almenningssamgöngukerfi. Þannig er það í öllum borgarsamfélögum og deilibílar og sú þróun sem á sér stað á þessum markaði mun leysa ýmis vandamál sem við horfum á í borgarsamfélögum (Forseti hringir.) í dag. Þannig að ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þessu máli.