149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

aðgerðir gegn kennitöluflakki.

670. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar um kennitöluflakk. Þetta hefur því miður orðið gamalgróið í málinu, að heita má, en kennitöluflakk kallast það þegar fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot flytur eignir sínar yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á gömlu kennitölunni. Þannig getur eigandi fyrirtækisins haldið áfram rekstri án þess að borga upp skuldir sínar því kröfuhafarnir geta aðeins gengið að þeim eignum sem skráðar eru á gömlu kennitöluna.

Í könnun sem nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík gerðu fyrir nokkrum árum meðal stjórnenda 600 íslenskra fyrirtækja kom fram að rúmlega 73% íslenskra fyrirtækja höfðu tapað fjármunum á kennitöluflakki og þriðjungur þeirra hafði tapað fjármunum á kennitöluflakki oftar en sex sinnum. Mikill meiri hluti af þeim stjórnendum sem tóku þátt sögðu að þörf væri á lagasetningu til að stemma stigu við kennitöluflakki.

Þetta er samfélagsmein, virðulegur forseti, sem hefur verið til umfjöllunar misserum og árum saman, kemur upp aftur og aftur. Samtök iðnaðarins hafa verið harðorð í gagnrýni sinni á kennitöluflakk í íslensku atvinnulífi og árið 2004 fóru þau í sérstaka herferð gegn kennitöluflakki. Það eru tíu ár frá því að fjórir þingmenn lögðu fram frumvarp á Alþingi þessa efnis, sem dæmi.

Í skýrslu vinnuhóps félags- og barnamálaráðherra frá því í janúar sl. um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði er þetta efst á blaði, að taka á kennitöluflakki með afgerandi hætti. Bregðast þurfi tafarlaust við og nauðsynlegt sé að hrinda í framkvæmd skilvirkum aðgerðum. Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sömuleiðis barist fyrir þessu árum saman og fyrir liggja heildstæðar tillögur sem hægt er að gera að veruleika án tafar.

Virðulegur forseti. Ég lagði fram þessa fyrirspurn fyrir um þremur vikum síðan og nú um helgina var í fréttum að komin væru á samráðsgáttina drög að frumvarpi sem ætlað er að taka á kennitöluflakki og frestur til að skila inn umsögnum er fram á fimmtudag. Þetta er auðvitað ánægjulegt, eins langt og það nær, og ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir snögg viðbrögð, hún er ung og tápmikil og bregst hratt við.

En ég er með þrjár spurningar. Sumpart eru þær auðvitað úreltar. Ein gengur út á það hvort hæstv. ráðherra hyggist leggja fram málið núna á vordögum eða hvenær hún sjái það fyrir sér og hvort hún telji kannski að þessi drög sem liggja fyrir taki með nægilega góðum hætti á þessu máli þannig að það verði úr sögunni. Og að lokum: Hvaða tímamörk (Forseti hringir.) sér ráðherra fyrir sér varðandi frekari lagabreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í í þessu sambandi?