149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

kolefnishlutleysi við hagnýtingu auðlinda hafsins.

608. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aðallega upp til þess að fagna því frumkvæði hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés að leggja þessa fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra og fagna þessari umræðu. Ég tel að hér sé hreyft mjög athyglisverðri hugmynd sem sé alveg sjálfsagt að vinna frekar með. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra vék að, að það hefur náðst viss árangur. Útgerðir eru að vísu misjafnlegar en þær eru meðvitaðir um þetta og þær hafa virkilega lagt sig fram, sumar hverjar, í þessum efnum.

Mig langar aðeins að víkja að svartolíu og minna á að þetta skemmtiferðaskip sem var að stranda undan ströndum Noregs, Viking Sky, var knúið svartolíu og slík skip eru að sigla við Íslandsstrendur og jafnvel íslensk útgerðarfyrirtæki eru (Forseti hringir.) með skip sem knúin eru svartolíu. Mig langar að leggja inn í þetta spurningu um það hvort hæstv. ráðherra telji kannski ástæðu til að huga að (Forseti hringir.) slíkri brennslu og jafnvel að reisa skorður við því?