149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Ég segi bara æ, æ, æ. Tímabundið, það var líka tímabundið þegar olíugjaldið var sett á sjómenn á sínum tíma. Það varir nú enn. Ég veit ekki hvað það hefur verið að sliga þá í marga áratugi. Hafa vextir eitthvað lækkað? Er eitthvað fyrirsjáanlegt að þótt við séum að lækka hér um 7 milljarða þennan bankaskatt að vextir í landinu séu að lækka? Ég get ekki séð það. Ég get ekki fest auga á því.

Ég er einfaldlega að benda á þegar ég tala um ríku karlana að landslagið er breytt. Hér erum við að horfa á ótrúlegar arðgreiðslur út úr bönkunum okkar, sem er vel. Og ég bara spyr, miðað við breyttar forsendur og gjörólíkt umhverfi og landslag sem við búum við í dag, hvort það sé ekki ástæða til að endurskoða nákvæmlega þetta og gefa þessum ágætu stofnunum kost á því að leggja meira af mörkum til samfélagsins.