149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt áhugavert í fjármálaáætluninni og ég þakka hv. þingmanni fallega ræðu.

Það sem mér leikur mest forvitni á að vita í upphafi eru þau skilaboð sem í fjármálaáætluninni felast til opinberra starfsmanna, þar sem ekki er í rauninni hægt að túlka öðruvísi en svo að gert er ráð fyrir að laun megi ekki hækka meira en 0,5% umfram verðlag, sem er talsvert minna en augljóslega er verið að krefjast í hörðum aðgerðum á vinnumarkaði núna og talsvert minna en Hagstofan gerir ráð fyrir í þjóðhagsspá sinni.

Skilaboð ríkisstjórnarinnar virðast vera mjög skýr og klár til opinberra starfsmanna: Ef þeir fara fram á meiri launahækkanir en þetta verður þeim sagt upp, af því að ráðuneytum og stofnunum verður gert að hagræða sem því nemur. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þau skilaboð ríkisins inn í yfirvofandi kjaraviðræður opinberra starfsmanna.