149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:42]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Við höfum rætt hér í dag þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Þetta hefur verið í öllum aðalatriðum mjög fín umræða og innihaldsrík. — Ég hélt að ég hefði ekki sagt neitt svo stórkostlega gáfulegt hingað til að það væri ástæða að veita því andsvar, [Hlátur í þingsal.] en ég þakka fyrir það og hlakka til þeirra. (ÞorstV: Við treystum á þig.)

Ég vil nálgast þessa umræðu út frá því að vísa í þessa ágætu greinargerð um forsendur fjármálaáætlunarinnar sem menn hafa jú dregið í efa. Ég held að það sé samt óhjákvæmilegt að við könnumst við það sem hún inniheldur og séum ekki að tala það með beinum hætti niður þannig að við fyllumst vonleysi.

Það er einn hlutur sem mig langar að draga fram í upphafi vegna umræðu sem fram fór fyrr í dag. Þegar menn ræða um stefnu og afkomumarkmið þá höfum við í því mikla góðæri sem ríkt hefur á undanförnum árum aukið útgjöld ríkissjóðs en við höfum átt fyrir þeim. Sú umræða hefur líka farið fram í dag. Við höfum í sjálfu sér ekki þanið þau út sem hlutfall af landsframleiðslu. Við höfum verið með útgjaldaaukningu sem við höfum átt fyrir. Meginniðurstaðan er að við höfum skilað ríkissjóði á undanförnum árum með meiri afkomu en við höfum að stefnt. Ég held að það sé mikilvægt að við drögum það fram í þessari umræðu. Til dæmis var í dag dreift nefndaráliti hv. fjárlaganefndar um ríkisreikning 2017 sem sýnir betri afkomu en þau fjárlög sem voru samþykkt við þær sérstöku aðstæður sem þá voru í þinginu. Mun betri afkomu. Bráðabirgðauppgjör fyrir árið 2018 sýnir í raun og veru betri afkomu en að var stefnt. Við höfum því sýnt ábyrgð. Við höfum líka náð betri árangri en við höfum ætlað okkur og afkomumarkmiðin sem við höfum sett í ríkisfjármálastefnuna hafa náðst og gott betur. Ég held að það sé mikilvægt að við höldum þessu til haga.

Við höfum siglt hraðbyri í efnahagslífinu á undanförnum árum og það eru margir þættir sem benda til kólnunar og ég held að það sé mikilvægt að við viðurkennum það og vinnum með það. Það er ótal margt sem við höfum gert mjög vel á undanförnum árum og undirbúið okkur undir það að takast á við slíka niðursveiflu. Allt sem fer upp hefur tilhneigingu til að koma einhvern tímann niður aftur og jafn hraður vöxtur, jafn gríðarlega mikill vöxtur og hefur verið undanfarin ár er ekkert endilega eftirsóknarverður.

Við þessar aðstæður skiptir miklu máli að helstu áhrifavaldar hagstjórnarinnar hér á landi séu í lagi. Það eru opinber fjármál, það er peningastefnan og að vinnumarkaðurinn standi að málum með ábyrgum hætti og að allir þessir aðilar sem ég nefni hér hugi að sínu á sínu sviði til að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika og þeirri hagsæld sem við höfum þegar áunnið okkur. Þetta er í raun og veru verkefnið sem við verðum að hafa inni í umræðunni um fjármálaáætlun til næstu ára og aðrir aðilar sem leika stórt hlutverk í þeim þáttum sem ég segi að sé kjarni eða áhrifavaldar hagstjórnarinnar hér á landi.

Það kemur skýrt fram í fjármálaáætluninni að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til ýmsar aðgerðir til að verja þessa sterku efnahagsstöðu, t.d. með innleggi í kjaraviðræður og áfram skal skilað afgangi á heildarafkomu hins opinbera. Skattlagning á heimili og fyrirtæki lækkar með raunhæfum hætti. Skuldastaðan og vaxtabyrði af hennar völdum heldur áfram að lækka jafnt og þétt. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að gerðar séu kostnaðarsamar ráðstafanir til að stuðla að því að samkomulag náist á vinnumarkaði. Allt þetta innifelur stefnan sem birt er í þessari fjármálaáætlun og er kjarni hennar og reynt er að ná fram.

Ég vil segja vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram í dag, ég átti kannski von á því að við værum með meiri fókus á fréttir undanfarna daga, t.d. vegna stöðu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, að ég gleðst yfir því að þau skilaboð sem hafa verið send út með mjög skýrum hætti vegna þeirrar umræðu hafa náð ágætlega í gegn og áfram verður unnið að samkomulagi í þeim efnum. Ég hafna því aftur á móti, virðulegi forseti, að forsendur þessa plaggs, þessarar fjármálaáætlunar sem hér er rædd, séu brostnar. Ég get ekki tekið undir það og mér finnst það allt of djúpt í árinni tekið, sérstaklega með tilliti til þess hvernig við höfum náð að halda á málum á undanförnum árum og náð betri árangri en við höfum oft að stefnt. Við getum vísað til umræðu um fjármálaáætlun fyrir ári síðan þar sem með ákveðnum hætti voru sömu varnaðarorð höfð uppi. Það mun einhvern tímann raungerast. Ef maður spáir alltaf hörmungum ár eftir ár þá munu menn einhvern tímann hitta á það. Það hefur sagan kennt okkur. Hér voru uppi varnaðarorð fyrir ári síðan um samdrátt en við erum að skila uppgjöri fyrir síðasta ár með meiri hagvexti en að var stefnt. Ég er ekki með þessu að gera lítið úr áhyggjum manna af þeim horfum sem eru í efnahagslífinu nema síður sé. Ég vil ekki að við gerum þær meiri eða alvarlegri en efni standa til.

Ég fagna því sérstaklega að fjármálaáætlun sé lögð fram með þeim grunngögnum sem hún á að byggja á. Það verður síðan verkefni hv. fjárlaganefndar að vinna að greiningum í sinni vinnu og meðferð á fjármálaáætlun og ég heiti því að nefndin öll mun standa vel að verki í þeim efnum. Við munum þurfa, sérstaklega vegna þessara aðstæðna, að kalla til fleiri umsagnaraðila og kalla til fleiri greiningar en kannski oft áður. Þegar slík óveðursský eru á sjóndeildarhringnum þá ber okkur sannarlega að gá til veðurs og greina þau eins og við best getum.

Önnur umræða sem hefur verið áberandi í dag er um stefnuna og hvort það sé ástæða til að taka hana upp og hvernig við getum brugðist við, gangi það eftir sem ótti manna er um, að það sé samdráttur í tekjum ríkissjóðs og samdráttur í efnahagslífi.

Ég vil í fyrsta lagi benda á að við höfum þennan sterka hagvöxt sem var á síðasta ári. Við höfum enn þá ekki neina ástæðu til að ætla að þau útgjöld sem ætluð eru í fjárlögum þessa árs eða í fjármálaáætlun fyrir næsta ár geti ekki gengið eftir. Það hefur verið bent á það í umræðunni í dag að verulegir fjármunir eru lagðir til varasjóða, sérstaklega á seinni hluta áætlunar, og síðan getur fjármálastefnan mögulega komið til endurskoðunar. Ég tek undir þau sjónarmið þegar bent er á þessa þrjá þætti og sagt að með ákveðnum hætti sé stífur rammi fyrir stjórnvöld að umgangast fjármálastefnuna en kannski, ef við horfum á hana út frá sjónarhóli þingsins, erum við ekki með sama hætti jafn bundin í stefnuna því að auðvitað verður það ákvörðun þingsins hvernig við beitum henni eða göngum um hana. Rétt eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt í þessari umræðu í dag er í sjálfu sér engin goðgá að endurskoða stefnu ef hagvöxtur dregst saman í harðagrjót og verður enginn. Hvers vegna ætti þá að stefna að jafn miklum afgangi og stefnt er?

Virðulegur forseti. Tíminn hleypur frá okkur en það eru fjölmargir þættir í fjármálaáætluninni sem væri sannarlega ástæða til að hampa og draga sérstaklega fram hér í umræðunni. Það mun væntanlega koma fram í umræðum við ráðherra um einstaka málaflokka. Ég vil einungis undirstrika þann árangur sem við höfum náð á undanförnum árum, sem birtist m.a. í því að við höfum lækkað skuldir ríkissjóðs gríðarlega mikið á undanförnum árum, nánast helmingað skuldirnar frá 2012, 2013, úr 1.500 milljörðum. Þetta þýðir það, svo ég komi því frá mér, virðulegur forseti, að í við lok fjármálaáætlunartímans 2024 hefur neikvæður vaxtajöfnuður ríkissjóðs fallið úr, ef ég fer rétt með töluna, 3% af vergri landsframleiðslu árið 2013 niður í 0,5% árið 2024. Þetta er 75 milljarða sveifla. Mér finnst ástæða að draga sérstaklega fram við upphaf umræðu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hversu gríðarlega miklu máli það hefur skipt að greiða niður skuldir ríkissjóðs og ná þessum árangri. Þetta er í raun og veru það súrefni og það bjarg sem við getum byggt áfram (Forseti hringir.) á til þess að komast í gegnum þá mögulegu niðursveiflu sem núna er í kortunum (Forseti hringir.) og reisa síðan hratt aftur við íslenskt efnahagslíf og halda áfram að byggja upp góð lífskjör á Íslandi.