149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það hlýtur að vera eitt af grundvallaratriðunum, áður en til endurskoðunar á fjármálastefnu kemur, að það séu nokkuð augljósar aðgerðir sem færar séu til að ná jafnvægi út frá gildandi stefnu. Þá má auðvitað horfa til þess, eins og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni, að við eigum að baki fordæmalitla eða fordæmalausa aukningu ríkisútgjalda á undanförnum árum.

Hvaða mælikvarða sem við kjósum að líta á er í fjármálaáætluninni sem við tökum hér til umræðu gert ráð fyrir enn frekari aukningu og skattalækkunum því til viðbótar. Stæði hv. þingmaður frammi fyrir því vali nú hvort endurskoða ætti fjármálastefnu, annað tveggja hætta við frekari útgjaldaaukningu eða hætta við skattalækkanir, hvað teldi hv. þingmaður skynsamlegt að gera í þeirri stöðu?