149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er tilefni til að halda aðeins áfram að ræða vöxt báknsins, því að það er búið að vera gríðarlegt hjá þessari ríkisstjórn undir forystu hæstv. forsætisráðherra.

Árið 2015 námu útgjöld ríkissjóðs 698 milljörðum kr. Nú er gert ráð fyrir því samkvæmt þessari áætlun að við lok tímabilsins muni útgjöld ríkissjóðs nema 1.067 milljörðum kr., þ.e. fari úr 698 milljörðum í 1.067. Það er 53% aukning. Því hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þessi ríkisstjórn hafi alls engar áhyggjur af þeim gríðarlega vexti ríkisútgjalda sem hún gerir ráð fyrir. Ég veit að verkefnin eru mörg og mikilvæg, en þau voru það líka 2015.

Er hæstv. forsætisráðherra þeirrar skoðunar að það þurfi bara alls ekkert að hafa áhyggjur af auknum útgjöldum ríkissjóðs svo framarlega sem vænta megi aukinna tekna? Sér hæstv. forsætisráðherra enga möguleika á því að spara í útgjöldum ríkisins? Því að það fer ekki mikið fyrir slíku í þessari áætlun.

Verið er að bæta í hér og þar. En hvar er verið að spara á móti? Er það aukaatriði að mati ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra, að líta til mögulegra leiða til sparnaðar og að draga úr óþarfaútgjöldum? Því að allt eru þetta peningar sem fólkið í landinu greiðir ríkissjóði, þetta eru ekki peningar ríkisstjórnarinnar, hún er að fara með skattfé. Er þá ekki eðlilegt að horft sé til þess (Forseti hringir.) að reyna fara eins vel með þetta fjármagn og kostur er?