149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir andsvarið. Ég er pínulítið ringluð eftir orð hans vegna þess að hæstv. forsætisráðherra sagði: Við getum ekki verið að velta fyrir okkur hvað gerist ef, kannski, við verðum að horfa á stöðuna eins og hún er núna og við verðum að horfa á hana út frá þeim spám sem eru í fjármálaáætlun. En þegar ég spyr hæstv. sveitarstjórnarráðherra um þá stöðu sem uppi er þar verðum við að horfa á hvað mun kannski gerast ef eitthvað.

Þetta gerir að verkum að umræðan í dag verður mjög óljós. Það er óvart þannig að sveitarfélög, sem eiga að þjónusta alla íbúa og sjá um alla grunnþjónustu, byggja áætlun sína á framlögum frá ríkinu. Það er erfitt fyrir bæði sveitarfélög og opinberar stofnanir og aðra að byggja á fjármálaáætlun (Forseti hringir.) sem er einhvern veginn varla — hún er þriggja daga gömul og öll upp í loft. Maður veltir fyrir sér: Er þetta ábyrgt?